Enn mikil virkni en ekki gos á næstu klukkustundum

Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá …
Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá er megin virknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu. Kort/Veðurstofa Íslands

Mat vísindamanna eftir fjarfund vísindaráðs almannavarna nú síðdegis er að nýjustu gögn gefi ekki vísbendingar um að gos sé yfirvofandi á næstu klukkustundum. Jarðskjálftamælingar sýna að virknin er ennþá mikil á svæðinu, þótt dregið hafi úr henni eftir óróapúlsinn sem mældist í gær.

Skjálftavirknin hefur verið að færast örlítið í suðvestur, en ennþá er meginvirknin á þeim slóðum sem hún hefur verið að undanförnu, að því er fram kemur í tilkynningu.

Enn merki um að kvikugangur sé að myndast

Á fundinum var farið yfir nýjar gervihnattarmyndir sem bárust í dag en þær spanna tímabil frá 25. febrúar til 3. mars og sýna enn þá merki um að kvikugangur sé að myndast á svæðinu milli Fagradalsfjalls og Keilis.

„Það styðja einnig GPS-mælingar, sem sýna áfram nokkuð stöðuga hreyfingu, sem þó virðist hafa hægt á sér miðað við síðustu daga. GPS-mælingarnar, ásamt InSAR-gögnum, sýna því að ekki varð veruleg aukning í kvikuhreyfingum samfara jarðskjálftavirkninni 3. mars. Sérfræðingar munu túlka frekar aflögunargögn til að átta sig á hversu miklar breytingar hafa átt sér stað og hvað þær þýða um framvindu mála,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Enn verði að gera ráð fyrir gosi

Niðurstaða vísindaráðs er sú að nýjustu mælingar og gögn sýni að þau merki sem komu fram í gær um að veruleg hætta væri á að gos gæti hafist á næstu klukkustundum hafi dofnað mjög. Jarðskjálftavirkni og aflögun heldur eigi að síður áfram. Því hafi þessi atburðarás ekki áhrif á þær sviðsmyndir sem unnið hafi verið eftir; að gera verði ráð fyrir að gos geti brotist út ásamt líklegustu staðsetningu og mögulegu umfangi goss. 

Áfram verði að gera ráð fyrir því að framvinda á Reykjanesskaga verði kaflaskipt næstu daga og aftur geti komið skyndilegir púlsar með þéttum smáskjálftum, sambærilegir þeim sem mældust í gær. Dæmi um slíka kaflaskipta virkni, þar sem kvika kemst á hreyfingu og framkallar púlsa með tíðum smáskjálftum, eru Kröflueldar 1975-1984. Þar einkenndist virknin af talsverðri skjálftavirkni og kvikuhreyfingum samfara púlsum með smáskjálftavirkni. Í sumum tilfellum urðu eldgos, í öðrum ekki.

„Það er mat vísindaráðs að nauðsynlegt sé að taka óróapúlsa, sambærilega þeim sem varð í gær, alvarlega og reikna með þeim möguleika að gos kunni að vera yfirvofandi þegar þeir mælast,“ segir í tilkynningunni en ráðið fundar aftur á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert