Fjögur hundruð fermetra hús orðið eldinum að bráð

Frá eldsvoðanum í kvöld. Birt með leyfi Austurfréttar.
Frá eldsvoðanum í kvöld. Birt með leyfi Austurfréttar. Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson

Fjögur hundruð fermetra verkfærahús er fallið í eldsvoða við bæinn Ytri-Víðivelli í Fljótsdal.

Húsið stendur í ljósum logum ásamt aðliggjandi hlöðu, sem þó er möguleiki á að bjarga, að sögn Harðar Guðmundssonar, eiganda verkfærahússins.

Hann kom að eldinum eftir að hafa verið á æfingu fyrir þorrablót í félagsheimilinu Végarði, sem stendur þar nærri.

„Þegar ég kom heim var allt fullt af reyk,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Engum orðið meint af

Enginn búfénaður var í húsunum og hefur engum orðið meint af vegna eldsins, að sögn Harðar.

Segir hann líta út fyrir að eldurinn hafi kviknað undan viðarkyndara.

Slökkvilið frá Egilsstöðum er að störfum á staðnum og gengur slökkvistarf vel.

Vindur stóð frá öðrum húsum

Héraðsmiðillinn Austurfrétt greindi fyrst frá eldsvoðanum í kvöld og sagði þá fyrstu bíla frá slökkviliðinu á Egilsstöðum nýkomna á staðinn.

„Vindur stendur þó frá öðrum húsum og þau því ekki í hættu vegna eldsins,“ sagði í umfjöllun fréttavefsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert