Þrisvar sinnum dýrara að flytja sorp út til brennslu

Sorpa. Miklar hækkanir á gjaldskrá voru kynntar neytendum um áramótin.
Sorpa. Miklar hækkanir á gjaldskrá voru kynntar neytendum um áramótin. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég hef heyrt þessar umkvartanir og hef skilning á þeim,“ segir Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Miklar hækkanir voru gerðar á gjaldskrá Sorpu um áramótin. Viðmælendur Morgunblaðsins segja að hækkanir nemi í mörgum tilvikum tugum prósenta og í sumum enn hærra. Stutt yfirferð staðfestir þetta og meðal annars má sjá að nú er 10% dýrara að skila inn steinefnum frá framkvæmdum, gjald fyrir uppsóp frá götuhreinsun hefur hækkað um 75%, fita frá skolphreinsistöðvum um 175% og skil á filmuplasti um 718%. Verðskráin er aðgengileg á heimasíðu Sorpu. Lágmarksgjald fyrir flokkað efni á móttökustöðvum hækkar um rúm 11% í 1.950 krónur.

Jón Viggó segir að verðhækkanir og fyrirhugaðar breytingar á þjónustu Sorpu eigi aðallega rætur að rekja til eigendasamkomulags sem var endurnýjað árið 2020 um að hætta að urða sorp í Álfsnesi í lok árs 2023. Þar hafi verið teiknuð upp áætlun um að ákveðin efni fari í aðra farvegi af þeim sökum.

„Stóri þátturinn í þessu er sá að við erum að fara að flytja út tölvert magn af brennanlegu efni til orkuvinnslu í ár og sá farvegur er um það bil þrisvar sinnum dýrari en urðun. Þess vegna kemur þessi hækkun fram. Okkur ber skylda til að innheimta raunkostnað í okkar starfsemi. Þótt magn minnki er mikið af föstum kostnaði í starfsemi Sorpu svo einingaverð hækkar. Það er afleiðing af ákvörðun eigenda, sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er metnaðarfullt plan og við erum að vinna eftir því með þessum áhrifum á gjaldskrána. Aðrar helstu ástæður hækkana eru að meðhöndlun á lífrænum úrgangi er dýrari í Gaju en við urðun auk almennra hækkana sem urðu vegna launahækkana í kjarasamningum og við styttingu vinnuviku.“

Jón Viggó segir að útflutningur á sorpi sé millileikur þar til byggð verði sorpbrennsla hér sem nýtist til að farga úrgangi á borð við pappír, plast, textíl og timbur. Hann segir að Sorpa hafi skoðað urðun á öðrum stöðum á landinu, til að mynda í Fíflholti á Mýrum. Aðrar stöðvar geti því miður tæpast staðið undir því að taka við urðun frá höfuðborgarsvæðinu vegna þess mikla magns sem þar fellur til.

Telur þú að þessi ákvörðun um að hætta að urða sorp geti skapað sveitarfélögum önnur vandamál sem þau þurfa að leysa í staðinn?

„Svona stefnumótandi ákvörðun um að hætta að urða hefði kannski átt að áhættumeta og greina betur afleiðingar af. Menn hafa svo sem hætt að urða víðsvegar í heiminum og lokað urðunarstöðvum en ég held að ég geti fullyrt að það hafi aldrei gerst eins hratt og þarna er skipulagt. Það eru ýmis skref sem kannski hefði verið skynsamlegra að taka áður eins og að samræma söfnun á úrgangi og fara meira í sérsöfnun í heimabyggð, efla grenndarstöðvakerfið til að ná þessum endurvinnsluefnum sem klárlega fara í urðun núna í aðra strauma. Þá hefði magnið minnkað sjálfkrafa.“

Engin lausn í sjónmáli

Sveinn A. Bjarnason, rekstrarstjóri hjá Hreinsitækni, segir að viðskiptavinir fyrirtækisins hafi látið í ljós óánægju með hækkanir Sorpu. Þær bitni óneitanlega á þeim, enda hafi fyrirtækið ekki úr svo mörgum öðrum kostum að velja.
„Þegar gjaldskrá hækkar svona mikið þá mun það mögulega leiða til þess að einstaklingar og fyrirtæki muni halda að sér höndum með að tæma fitugildrur, sandskiljur og fleira fyrr en allt er komið í óefni. Það mun svo leiða til þess að fita og önnur efni sem eiga að stoppa í gildrum fara beint út í lagnakerfið, sem mun svo leiða af sér enn meiri vandamál. Þetta er keðjuverkun. Það er heldur engin augljós lausn í sjónmáli í þessum málum.“

Hann bætir við að loka eigi fyrir urðun í Álfsnesi 2023 og engin framtíðarsýn hafi verið kynnt. „Lausnin virðist fólgin í því að hækka gjaldskrána.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka