Það verður erfitt að gleyma þessu

Elvar Ásgeirsson í góðu færi í leiknum við Króata.
Elvar Ásgeirsson í góðu færi í leiknum við Króata. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Elvar Ásgeirsson segir að það verði erfitt að hugsa ekki um síðasta skot sitt í leiknum gegn Króötum á Evrópumótinu í handknattleik í Búdapest í dag.

Elvar fékk dauðafæri á lokamínútunni þegar staðan var 22:22. Hann braust þá í gegnum vörn Króata og var einn gegn markverðinum en sendi boltann framhjá stönginni fjær. Í staðinn voru það Króatar sem skoruðu sigurmarkið 14 sekúndum fyrir leikslok.

„Mér líður hræðilega. Það er alltaf sárt að tapa og það var ég sem átti lokaskotið sem geigaði. Við vorum þolinmóðir í sókninni og galopnuðum vörnina. Ég ætlaði að skjóta vinstra megin við markvörðinn en einhverra hluta vegna missti ég takið á boltanum og hann fór langt framhjá markinu. Það er erfitt að hugsa til þessa núna. Ég mun reyna að gleyma þessu en ég veit að það verður erfitt," sagði Elvar við TV2 í Danmörku eftir leikinn en þetta var aðeins þriðji A-landsleikur hans á ferlinum.

„Hann gat gert út um leikinn en þetta er leikmaður sem ekki hefur áður verið á stórmóti. Þetta er dýr lexía," sagði Guðmundur Guðmundsson þjálfari við TV2.

Danirnir ræddu einnig við Viktor Gísla Hallgrímsson, markvörð Íslands og danska liðsins GOG, um atvikið.

„Hann stóð sig vel í leiknum sem var bara hans þriðji landsleikur og það er erfitt að fá þá ábyrgð að eiga síðasta skotið. Það var ekki honum að kenna að við töpuðum leiknum. Það voru fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleik sem réðu úrslitum," sagði Viktor Gísli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert