Fótbolti

Guðjón Þórðar ekki áfram í Ólafsvík

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson. Mynd/Daníel

Guðjón Þórðarson mun ekki halda áfram að þjálfa lið Víkings frá Ólafsvík í Lengjudeild karla í fótbolta.

Guðjón greinir sjálfur frá þessu á samfélagsmiðlum í kvöld.

Þar segir Guðjón að hann hafi haft áhuga á að halda áfram þjálfun liðsins en það hafi verið mismunandi áherslur sem leiddu til þess að ekki náðist samkomulag um framhald á samstarfi.

Guðjón kveðst hafa gert Ólafsvíkingum tilboð sem hann telji mjög sanngjarnt miðað við gefnar forsendur og að það hafi verið mun lægra en forveri hans í starfi hafði.

Guðjón tók við Víkingi af Jóni Páli Pálmasyni þegar lítið var búið af mótinu og stýrði Ólafsvíkingum í 9.sæti.

Í færslu Guðjóns þakkar hann fyrir sérstaklega gott samstarf og óskar Víkingum alls hins besta.

Guðjón er einn farsælasti fótboltaþjálfari Íslands frá upphafi en hann hefur þjálfað ÍA, KA, KR, Grindavík, Keflavík og BÍ/Bolungarvík hér á landi auk íslenska landsliðsins. Þá hefur hann þjálfað í Englandi, Noregi og í Færeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×