Ætlaði bara að skalla hann framhjá

Kristinn Jónsson, þriðji frá vinstri, eftir að Kennie Chopart kom …
Kristinn Jónsson, þriðji frá vinstri, eftir að Kennie Chopart kom KR í 2:1 í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

KR heimsótti ÍBV á Hásteinsvelli í kvöld í Bestu deild karla í knattspyrnu. KR-ingar höfðu betur í leiknum og sigldu heim með stigin öll eftir 2:1-sigur.

Það var ekki mikið að frétta í leiknum sóknarlega, en bæði lið voru sæmilega þétt tilbaka. ÍBV skapaði sér ekki mörg marktækifæri í leiknum, ekkert frekar en KR, en mark Eyjamanna var ansi áhugavert sjálfsmark frá Kristni Jónssyni, fagurskeggjuðum bakverði KR.

„Í fljótu bragði held ég að ÍBV hafi ekki skapað sér ekki neitt, fyrir utan sjálfsmarkið hjá mér. Ekki mikið að gerast í þeirra sóknarleik og góður varnarleikur hjá okkur,“ sagði Kristinn.

Þegar Kristinn var inntur eftir því hvað hefði eiginlega gerst í sjálfsmarkinu brosti hann í annað. „Þessi staða hefur komið upp þúsund sinnum áður. Ég er illa staðsettur og sé ekki hvað er að gerast fyrir aftan mig. Ég fæ að vita eftirá að ég sé aleinn.

Ég ætla í raun bara að skalla hann framhjá, eins og ég hef gert þúsund sinnum. Það kemur smá vindur á hann og ég hreinlega hamra honum inn, hvort það hafi verið flugskalli eða eitthvað annað. En jákvætt að við tókum allavega þrjá punkta í dag og við getum hlegið að þessu,“ sagði Kristinn sem átti ágætis leik fyrir utan þetta atvik.

KR-ingar voru með fjögur stig fyrir leikinn og sigurlausir í síðustu þrem leikjum. Stigin höfðu þeir unnið sér inn með jafntefli í síðustu umferð gegn KA og sigri í fyrstu umferð gegn liði Fram sem hefur verið spáð erfiðu sumri í Bestu deildinni. Kristinn var þó ekki á þeirri skoðun að frammistöðu liðsins væri ábótavant.

„Stigasöfnunin hefur verið hæg í byrjun móts en frammistaðan heilt yfir finnst mér hafa verið fín. Sérstaklega í síðustu þrem leikjum. Við höfum kannski ekki náð að klára leikina úr stöðunum sem við höfum verið í með því að setja mark og komast yfir. En frammistaðan fín og góð frammistaða í dag sem er framhald af því sem við höfum verið að gera í síðustu leikjum,“ sagði Kristinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka