Þriðjungur Víetnama þarf að vera heima

Heilbrigðisstarfsmenn skima konu í borginni Hanoi.
Heilbrigðisstarfsmenn skima konu í borginni Hanoi. AFP

Um þriðjungur Víetnama þarf að halda sig heima við eftir að útgöngubann tók gildi í dag vegna Covid-19 í mörgum héruðum í suðurhluta landsins.

Um 100 milljónir manna búa í Víetnam.

Þessar hertu takmarkanir voru settar á degi eftir að greint var frá næstum sex þúsund nýjum tilfellum kórónuveirunnar síðasta sólarhringinn, sem er met í landinu.

Íbúar í höfuðborginni Hanoi voru einnig beðnir um, en ekki skyldaðir til, að halda sig heima við, auk þess sem flestum verslunum hefur verið lokað. Ekki mega fleiri en fimm manns koma saman í opinberu rými.

Maður gengur fram hjá veggmynd í Hanoi sem sýnir starfsfólk …
Maður gengur fram hjá veggmynd í Hanoi sem sýnir starfsfólk sem hefur verið áberandi í baráttunni gegn Covid-19. AFP

„Tilskipunin frá yfirvöldum í Hanoi kom skyndilega,“ sagði Nguyen Thanh Van.

„En ég er fullkomlega sammála henni. Við viljum frekar að gripið verði til harðra aðgerða heldur en að lenda í svipuðu ástandi og í Ho Chi Minh-borg.

„Við höfum unnið fyrri orrustur, en þessi verður erfið.“

Flest smit hafa greinst í Ho Chi Minh-borg og hefur útgöngubann verið í gildi þar og á nærliggjandi svæðum undanfarna viku.

Kórónuveirusmitum hefur fjölgað mjög í Víetnam síðan seint í apríl eftir að vel gekk að halda aftur af Covid-19 í landinu á síðasta ári.

Heilbrigðisstarfsfólk á gangi.
Heilbrigðisstarfsfólk á gangi. AFP

Bólusetning í landinu hefur gengið hægt fyrir sig og hafa aðeins 4,3 milljónir skammta verið gefnar til þessa. Víetnamar eru einnig að þróa sitt eigið bóluefni og vonast þeir til að hjarðónæmi náðist snemma á næsta ári.

Alls hafa tæplega 56 þúsund tilfelli kórónuveirunnar greinst í Víetnam og 254 hafa látist.

Vegna þess hve vel gekk að halda aftur af veirunni á síðasta ári var Víetnam eitt af fáum ríkjum þar sem aukinn hagvöxtur mældist í fyrra. Á fyrri helmingi þessa árs hefur hagvöxturinn mælst 5,64 prósent, sem er í samræmi við áætlanir stjórnvalda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert