Vildi ekkert tjá sig um Greenwood

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United.
Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United. AFP/Oli Scarff

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, vildi engu svara um Mason Greenwood, leikmann liðsins, eftir að sakamál á hendur honum var látið niður falla.

Greenwood var handtekinn í byrjun síðasta árs, grunaður um tilraun til nauðgunar, stjórnsama og þvingandi hegðun og líkamsárás í garð Harriet Robson, sem þá var kærasta hans.

Málið var látið niður falla fyrir helgi en Greenwood fær ekki að æfa né spila með Man. United á meðan félagið framkvæmir sína eigin rannsókn á málinu, líkt og fram kom í yfirlýsingu félagsins.

Hljóðupptaka er til af Greenwood að hóta því að þvinga Robson til samræðis auk þess sem hún birti myndir af sér á samfélagsmiðlum með áverka, sem hún gaf til kynna að væru af hendi hans.

Á blaðamannafundi í gær var ten Hag spurður hvort hann hefði eitthvað að segja um Greenwood.

„Nei, ekkert. Ég get ekki bætt neinu við, ég vísa til yfirlýsingar félagsins,“ svaraði hann þá.

Ten Hag var þá spurður hvort hann hafi rætt við Greenwood og hvort hann sjálfur væri hluti af ferli félagsins hvað rannsókn þess varðar.

„Eins og ég sagði, á þessari stundu get ég ekkert tjáð mig um ferlið. Ég get ekkert sagt um þetta, ég vísa til yfirlýsingar félagsins og sem stendur get ég engu bætt við,“ sagði ten Hag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert