Lagðist ánægður á koddann

Sigvaldi skorar glæsilegt mark í leiknum í gær þar sem …
Sigvaldi skorar glæsilegt mark í leiknum í gær þar sem hann lagði boltann upp í fjærhornið með laglegri úlnliðshreyfingu um það bil sem hann lenti. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sigvaldi Björn Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu þegar Ísland vann Portúgal 28:24 í fyrsta leik liðanna á EM karla í handknattleik í Búdapest í gærkvöldi. 

Hann gat ekki neitað því að ljúft hafi verið að leggjast á koddann í gærkvöldi eftir gott dagsverk. „Alveg klárlega. Þetta er mjög flott mót og við erum mjög ánægðir með að fá tvö stig gegn flottu liði Portúgals. Við fórum því ánægðir að sofa,“ sagði Sigvaldi Björn en eins og fram hefur komið hafa landsliðsmennirnir þurft að bíða lengi eftir fyrsta leiknum í þeim skilningi að þeir hafa ekki spilað síðan þeir spiluðu með félagsliðum sínum fyrir nokkrum vikum. 

„Nú er þetta bara byrjað. Þetta var nánast fullkomin byrjun og við gátum ekki beðið um meira. Allir leikir verða svakalega erfiðir í motinu og nú erum við spenntir fyrir að mæta Hollendingum á morgun. Við erum byrjaðir að undirbúa okkur fyrir það á fullu.“

Sigvaldi Björn fagnar ásamt liðsfélögunum eftir að hafa veit viðurkenningunni …
Sigvaldi Björn fagnar ásamt liðsfélögunum eftir að hafa veit viðurkenningunni mótttöku. Ljósmynd/Szilvia Micheller

Sigvaldi Björn skoraði 5 mörk á móti Portúgal og var valinn maður leiksins af mótshöldurum. Gera svona viðurkenningar mikið fyrir hann? 

„Já en ég veit ekki hvort ég hafi átt þetta skilið. Mér fannst Gísli [Þorgeir Kristjánsson] vera miklu betri en ég. Hann vann öll maður á móti manni einvígi og Aron [Pálmarsson]var líka helv... góður. En ég fékk þetta og hef gaman að því,“ sagði Sigvaldi en fyrir hann var afskaplega gott að byrja vel á EM. Nú er enginn Arnór Þór Gunnarsson og Sigvaldi ber þar af leiðandi miklu meiri ábyrgð en áður. 

„Alveg 100%. Það er ógeðslega mikilvægt fyrir hornamennina að byrja vel og fá góða tilfinningu. Með mótið framundan er mikilvægt að sjálfstraustið sé komið í fyrsta leik,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við mbl.is í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert