Vildum klára þetta með stæl

Birta Georgsdóttir með boltann í dag.
Birta Georgsdóttir með boltann í dag. mbl.is/Arnþór Birkisson

Vilhjálmur Kári Haraldsson, þjálfari Breiðabliks, var ansi kátur í samtali við blaðamann mbl.is eftir 6:1 sigur liðsins á Þrótti í lokaumferð Pepsi Max-deildar kvenna í dag þrátt fyrir að vera ansi blautur.

„Við vorum bara að spila nokkuð vel miðað við aðstæður. Þetta voru ansi erfiðar aðstæður en stelpurnar spiluðu bara mjög góðan leik. Við vildum líka klára þetta með stæl og við gerðum það. Leikmenn Þróttar hittu ekki á góðan leik í dag, þær eru með virkilega gott lið og hafa verið að spila mjög vel í sumar en stundum er þetta svona. Maður hittir ekki á daginn sinn stundum og það var svolítið þannig hjá Þrótti í dag.“

Þessi lið mætast í bikarúrslitaleiknum eftir rúmlega tvær vikur. Verður þetta eins þá?

„Nei, þá er það bara nýr leikur og ný keppni. Við munum ekki græða neitt á þessum úrslitum í þeim leik. Við þurfum bara að gíra okkur í þann leik og gera vel eins og við gerðum í dag.“

Hvað með tímabilið í ár. Ertu sáttur með niðurstöðuna í deildinni?

„Ef ég horfi á tímabilið í heild sinni þá finnst mér margt hafi verið mjög gott. Auðvitað er það svekkjandi að geta ekki veitt Val aðeins harðari keppni um Íslandsmeistaratitilinn en við verðum líka að horfa á allar þær breytingar sem urðu á liði Breiðabliks fyrir tímabilið. Af þeim 21 leikmanni sem varð Íslandsmeistari með Breiðablik í fyrra er nú er aðeins einn þriðji eftir af þeim hópi. Það er auðvitað mikil blóðtaka.

Við höfum auðvitað fengið inn frábæra leikmenn á móti en við erum búnir að missa ansi marga leikmenn, nokkrar í atvinnumennsku  og svo höfum við lánað leikmenn sem fengu ekki mörg tækifæri hjá okkur. Svo vorum við að missa þrjá leikmenn bara fyrir stuttu. Þannig að ef maður horfið á þetta í heild sinni þá held ég að stelpurnar hafi gert mjög vel í sumar. Við erum svo sannarlega í öðru sæti mjög afgerandi og ég er sáttur með það. Það var mjög erfitt að verja titilinn eftir að hafa misst svona marga leikmenn þar sem við vitum að Valur er með frábært lið. Það tekur tíma að byggja upp nýtt lið.“

En þið eigið eftir bikarúrslitaleik og auðvitað leiki í Meistaradeild Evrópu. Það er dregið á morgun. Hvernig er spennustigið fyrir þann drátt?

„Það er mikill spenningur fyrir þessu. Við erum með okkar mann á staðnum, Úlfar Hinriksson, og hann fylgist með og vonandi hefur hann góð áhrif þannig að við fáum góðan riðil. Ég væri til dæmis alveg til í það að fara til Munchen og spila við Bayern Munchen en við tökum öllu.“

Erum við að tala um hópferðir á útileikina í Meistaradeildinni?

„Maður bara vonar það. Þetta er stórt. Vonandi er eitthvað að gera úr þessu. Það að keppa í riðlakeppni Meistaradeild Evrópu gerir líka ansi mikið fyrir íslenskan fótbolta. Það er ekkert langt í þetta fyrir hin liðin sömuleiðis þannig að ég held að það verði ansi mikill spenningur í kringum þetta á næstu árum að komast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.“

Það var tilkynnt í vikunni að þú myndir hætta með Breiðablik eftir þetta tímabil. Hvað tekur við hjá þér?

„Ég er búinn að vera í tveimur vinnum núna í svolítið langan tíma. Til að byrja með var ég hættur en þetta tækifæri að taka við liði Breiðabliks var eitthvað sem ég var ekki tilbúinn að sleppa þannig að ég ákvað að gera samning út þetta tímabil. Þannig að stóð ekki til að halda áfram en ég er í annarri vinnu hjá Eimskip og það er bara erfitt að tvinna þetta saman þannig að ég ætla að einbeita mér að því eins og reyndar ég var búinn að ákveða áður en ég tók við Blikaliðinu. Ég er búinn að gefa fótboltanum 25 eða 26 ár af minni ævi og þjálfun og núna fá einhverjir aðrir að blómstra í þessu.“

En það er heill vetur eftir. Úrslitaleikurinn í Meistaradeild Evrópu er í maí á næsta ári, ekki satt?

„Jú, reyndar en það var mikilvægt fyrir félagið að tilkynna þetta þannig að fólk vissi að hér væri laus staða og maður skilur það fullkomlega. Við viljum auðvitað vera að keppa um bestu þjálfarana þannig að það var nauðsynlegt að tilkynna þetta upp á þetta að gera,“ sagði Vilhjálmur að lokum við blaðamann mbl.is í rigningunni í Kópavogi í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert