Alvöru íslensk stemning á vellinum í fyrsta sinn

Leikmenn íslenska liðsins þakka áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leik.
Leikmenn íslenska liðsins þakka áhorfendum fyrir stuðninginn eftir leik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari var ánægður með leik sinna manna í öruggum 4:0 sigri gegn Liechtenstein í undankeppni HM 2022 í knattspyrnu karla í kvöld. Þá var hann ánægður með stuðninginn á Laugardalsvelli.

„Ég var mjög ánægður með hvernig við byrjuðum leikinn. Mér fannst við vera að gera það sem við lögðum upp með. Við vorum að reyna að halda tempóinu mjög háu, vorum að reyna að færa boltann hratt á milli kanta. Þeir eru góðir í að loka miðsvæðinu. Þegar þeir spila 5-3-2 er erfitt að brjótast í gegnum miðjuna hjá þeim

Það var í rauninni það sem við lögðum upp með að halda háu tempói. Fyrsta markið sem við skoruðum var nákvæmlega það sem við vorum búnir að tala um var það sem við töluðum um og gerðum á æfingu í gær, það var mjög jákvætt. Ég er náttúrlega mjög ánægður með að skora fjögur mörk og mjög ánægður með að halda hreinu,“ sagði Arnar Þór á blaðamannafundi eftir leik.

Erfitt að stjórna svona leikjum í 90 mínútur

Staðan var 2:0 í hálfleik og í þeim síðari skoruðu Íslendingar tvö mörk til viðbótar.

„Mér fannst við vera svolítið „sloppy“ í byrjun seinni hálfleiks. Það er eitthvað sem við töluðum um í hálfleik, að halda tempóinu háu og vera ekki sloppy en það er oft þannig að það eru bara 2-3 prósent sem verður til þess að sendingarnar verða aðeins „off“ og hreyfingarnar aðeins „off.“

Síðustu 15-20 mínúturnar, eftir að við urðum manni fleiri, förum við að skapa aftur færi og við skoruðum mörk. Heilt yfir er ég sáttur, það er erfitt að stjórna svona leikjum í 90 mínútur. Við vitum að Armenía gerði jafntefli við Liechtenstein og Þýskaland vann þá 2:0 þannig að það er ekkert sjálfsagt að skora fjögur mörk. Við erum ánægðir með það,“ bætti hann við.

Þakklátir fyrir stuðninginn

Arnar Þór kvaðst ánægður með stuðninginn á Laugardalsvellinum í kvöld og að þetta hafi í raun verið í fyrsta skipti sem hann upplifi alvöru stemningu á vellinum sem landsliðsþjálfari.

„Ég held að það hafi verið gaman á vellinum í kvöld, það var góður stuðningur. Þetta var kannski í fyrsta skipti fyrir mig sem landsliðsþjálfara að hafa svona alvöru íslenska stemmingu á vellinum. Við megum vera þakklátir fyrir að fá stuðninginn,“ sagði hann.

Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert