Lætur þunglyndi ekki stöðva sig

Noah Lyles fagnar sigri í 200 metra hlaupi á úrtökumóti …
Noah Lyles fagnar sigri í 200 metra hlaupi á úrtökumóti Bandaríkjanna fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. AFP

Hinn 22 ára Noah Lyles gerði sér vonir um að keppa um verðlaun í bæði 100 og 200 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Tókýó. Hann átti hins vegar slæman dag á úrtökumóti Bandaríkjanna í 100 metra hlaupinu og missti af sæti þar. Hann sýndi þó sitt rétta andlit viku síðar í 200 metra hlaupi þar sem hann sigraði á besta tíma ársins, 19,74 sekúndum, og er til alls líklegur á leikunum.

Lyles hefur talað opinskátt um glímu sína við þunglyndi í kjölfar morðsins á George Floyd í maí í fyrra. Lyles hafði áður barist við sjúkdóminn, en heilsu hans hrakaði vegna samkomutakmarkana og umræðunnar í kjölfar dauða Floyds.

Á Twitter sagði Lyles að hann hefði tekið lyf við þunglyndi og það hefði verið ein besta ákvörðun sem hann hefði tekið lengi. „Síðan þá hef ég getað hugsað án þess að tilfinningin um að ekkert skipti máli sé undirliggjandi,“ sagði hann.

Lyles hefur verið óhræddur við að láta skoðanir sínar í ljós í keppni. Í ágúst í fyrra klæddist Lyles svörtum hanska, lyfti hendi með krepptan hnefa og laut höfði fyrir hlaup í Mónakó. Þar vísaði hann í ódauðlegt látbragð þeirra Tommies Smiths og Johns Carlos á verðlaunapallinum í Mexíkóborg á Ólympíuleikunum 1968. Lyles gerði hið sama fyrir 100 metra hlaupið á úrtökumótinu og segist hvergi nærri hættur. „Við erum enn að deyja á götunum,“ sagði hann um svarta landa sína.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert