Stefnir á markakóngstitilinn

Andri Lucas Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu.
Andri Lucas Guðjohnsen í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/KSÍ

Andri Lucas Guðjohnsen, sóknarmaður Lyngby og íslenska landsliðsins, fer ekki í grafgötur með það að hann stefni á markakóngstitilinn í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu á tímabilinu.

Andri Lucas er sem stendur í öðru sæti yfir markahæstu menn með 11 mörk líkt og Cho Gue-Sung hjá Midtjylland. Markahæstur er Patrick Mortensen hjá AGF með 12 mörk.

„Ég er frekar nálægt þessu. Þetta er eitt af mínum persónulegu markmiðum. Sem sóknarmaður hugsar maður náttúrlega um að skora sem flest mörk, þannig að það er eðlilegt.

Ef við höldum áfram að spila eins og við höfum verið að gera og sköpum færi fyrir mig og aðra sóknarmenn í liðinu munum við halda áfram að skora mörk.

Þá get ég vonandi haldið mínu striki og hugsanlega endað sem markahæsti leikmaðurinn,“ sagði Andri Lucas í samtali við danska miðilinn Bold.

Yrði þýðingarmikið fyrir mig

„Það myndi hafa mikla þýðingu. Það yrði þýðingarmikið fyrir mig hvað persónuleg afrek mín á ferlinum varðar og sjálfstraust mitt.

Burtséð frá því hvort ég eða einhver annar skorar mörkin er mikilvægast að við söfnum stigum og höldum okkur þegar allt kemur til alls í úrvalsdeildinni,“ bætti hann við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert