Ísland væntanlega á EM í annað sinn

U21-árs landslið Íslands er að fara á EM.
U21-árs landslið Íslands er að fara á EM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska U21-árs landslið karla í knattspyrnu er að öllum líkindum á leiðinni á lokakeppni EM í Ung­verjalandi og Slóven­íu sem fram fer á næsta ári. Þetta varð ljóst eftir að Ítalía vann 4:1-sigur á Svíþjóð í 1. riðli undankeppninnar í dag.

Ítalía vinnur því riðilinn með 22 stig í toppsætinu og fer á EM. Sömuleiðis fara fimm liðin með besta árangurinn af níu í öðru sæti. Sem stendur er Írland í öðru sæti með 19 stig eftir tíu leiki en síðasti leikur Íslands gegn Armeníu gat ekki farið fram.

Íslandi verður væntanlega úrskurðaður 3:0-sigur af UEFA í þeim leik og endar því fyrir ofan Íra, með 21 stig. Ísland vann 2:1-sigur gegn Írlandi í Dublin á sunnudaginn og reyndist sá sigur ansi dýrmætur. Ísland hefur einu sinni áður komist á lokakeppni EM en það var árið 2011. Komst liðið þá ekki upp úr riðlinum sínum.

Riðlakeppnin á lokamóti EM hefst í mars á næsta ári en útsláttakeppnin fer svo fram í lok maí og byrjun júní. Dregið verður í riðla fyrir keppnina 10. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert