„Skagafjörðurinn er stærri en menn halda“

Sigurður Þorsteinsson í baráttunni undir körfunni í kvöld.
Sigurður Þorsteinsson í baráttunni undir körfunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Þorsteinsson var drjúgur fyrir Tindastól í kvöld en það dugði ekki til gegn Val þegar liðin mættust í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda.

Valur vann 84:79 og vann upp fimmtán stiga mun í síðasta leikhlutanum. „Við urðum svolítið ragir fannst mér. Við hættum að keyra á og létum boltann ekki ganga. Við fórum að reyna að halda forskotinu en sigurinn var ekki í höfn. Það eru svona fyrstu viðbrögð,“ sagði Sigurður þegar mbl.is tók hann tali í Valsheimilinu í kvöld.

Þegar lið ná góðu forskoti í mikilvægum leikjum þá er einmitt hættan sú að reyna að verja forskotið frekar en að sækja af sama krafti og áður. „Já algerlega. Boltaflæðið hætti hjá okkur. En þeir gerðu einnig vel í því að ýta okkur út úr okkar leik. Það má einnig hrósa þeim fyrir það.“

Tindastóll var mun betra liðið í fyrri hálfleik en Valur var mun betra liðið í síðari hálfleik og staðan er nú 2:1 fyrir Val. Við hverju mega íþróttaunnendur búast í næsta leik? 

„Áframhaldandi stríði geri ég ráð fyrir. Valur er hörkugott lið og sýndu það í kvöld.“

Stuðningsmenn Tindastóls voru líflegir í kvöld.
Stuðningsmenn Tindastóls voru líflegir í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður hefur spilað ófáar úrslitarimmurnar og er nú í úrslitum Íslandsmótsins með fjórða liðinu. Það hlýtur að vera skemmtilegt að vera þátttakandi í þessari rimmu Vals og Tindastóls. 

„Já ég held það. Lætin, áhorfendurnir og gæði liðanna. Þetta er í mjög háum gæðaflokki um þessar mundir,“ sagði Sigurður en leikmenn Stólanna geta ekki kvartað undan stuðningi Skagfirðinga á áhorfendapöllunum sem er mikill. 

„Skagafjörðurinn er stærri en menn halda. Hann teygir anga sína út um allt. Okkur líður alltaf eins og við séum á heimavelli, alveg sama hvar við spilum. Ég býst við fullu húsi löngu fyrir leik í næstu viðureign. Leikurinn verður á sunnudegi og þá eru flestir í fríi,“ sagði Sigurður ennfremur en hann skoraði 12 stig og tók 7 fráköst í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert