Hæna fannst uppi í tré

Hæna hafði komið sér fyrir í tré í Fífuhvammi, í …
Hæna hafði komið sér fyrir í tré í Fífuhvammi, í Kópavogi. Svana Sigurjónsdóttir

Hæna fannst uppi í grenitré í Fífuhvammi, í Kópavogi á laugardag. Gréta Sóley Sigurðardóttir kom henni til bjargar eftir að hafa séð tilkynningu um hana inni á facebooksíðu fyrir týnd gæludýr.

„Ég hef búið í Fífuhvamminum í þrjú ár og þarf reglulega að stoppa fyrir hænum sem labba hérna yfir götuna en ég hef aldrei séð þær uppi í tré áður,“ segir Gréta í samtali við mbl.is.

„Þær hafa samt leitað á ákveðinn blett hérna í götunni svo mig grunaði alveg í hvaða tré hún væri. Ég ákvað þá að fara út og gá eftir henni og þar bara var hún.“

Ekki fyrsta björgunaraðgerðin

Eftir að hafa metið aðstæður sá Gréta fram á að þurfa að klifra upp í tréð til að ná til hænunnar og að vissara væri að láta einhvern vita af björgunaraðgerðunum ef ske kynni að þær færu illa.

„Ég ákvað að hringja í nokkrar vinkonur mínar og hafa þær með mér í myndsímtali á meðan ef ég skyldi detta og það þyrfti að hringja á sjúkrabíl. Ég er kannski ekki alveg sú fimasta í að klifra í grenitrjám. En ég náði hænunni niður með því að hrista greinina sem hún sat á og hún hoppaði sjálf niður. Svo rak ég hana bara yfir götuna því ég veit hún á heima einhvers staðar þar.“

Aðspurð um viðbrögð vinkvennanna segir Gréta þeim hafa verið skemmt. Þetta var þó ekki fyrsta björgunaraðgerð Grétu og því hafði eðli símtalsins ekki komið vinkonunum á óvart.

„Þær hlógu bara. Við erum allar með örmerkjaskanna og erum að leita að og skanna týnd dýr úti um allt. Þeim fannst þetta nú bara fyndið. Ég er búin að vera að reyna að ná kanínu uppi í Hafnarfirði þannig þær eru farnar að hlæja yfir því hvað ég er orðin fjölhæf,“ segir hún. 

Gréta Sóley er mikill dýravinur.
Gréta Sóley er mikill dýravinur. Gréta Sóley Sigurðardóttir

Komin aftur upp í tré

Að sögn Grétu er hænan komin aftur upp í tré og unir sér vel. Hún hafi þó ekki virkað hress að sjá Grétu, þegar hún kíkti aftur á hana í gær.

„Ég fann það á mér að hún væri aftur komin uppi í tré þegar ég kom heim í gær. Svo ég rölti yfir og þar sat vinkonan bara aftur. Þannig ég hef ekki miklar áhyggjur af henni lengur. Hún kemst alveg sjálf upp og niður aftur. Þetta er greinilega staðurinn hennar því greinarnar fyrir neðan eru allar útskitnar. Miðað við svipinn á henni var hún ekki mjög ánægð að sjá mig aftur.

Var bara ógeðslega fúl yfir því að ég væri mögulega komin til að hrekja hana burt af uppáhalds staðnum hennar eina ferðina enn. Eftir á að hyggja voru þetta kannski ekki alveg björgunaraðgerðir. Við vitum það alla vega núna að hún kemst sjálf upp og niður þannig það þarf ekki að hafa áhyggjur af henni. Það þarf ekki að bjarga henni.“

Hænan neitaði að tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert