Mætir Íslandi á morgun - hefur skorað í 14 leikjum í röð

Robert Lewandowski í baráttu við Ragnar Sigurðsson í landsleik Póllands …
Robert Lewandowski í baráttu við Ragnar Sigurðsson í landsleik Póllands og Íslands í Varsjá í nóvember 2015. Aron Einar Gunnarsson og Arnór Ingvi Traustason fylgjast með. Ljósmynd/Lukasz Skwiot

Varnarmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu þurfa á morgun að glíma við mesta markaskorara Evrópu um þessar mundir þegar þeir mæta Pólverjum í vináttulandsleiknum í Poznan.

Það er að sjálfsögðu Robert Lewandowski sem sló markametið í þýsku 1. deildinni í vetur með því að skora 41 mark fyrir meistara Bayern München.

Hann hefur heldur betur verið sjóðheitur undanfarnar vikur, og var þó vart á það bætandi, en Lewandowski hefur skoraði í fjórtán síðustu leikjum sem hann hefur spilað fyrir Bayern og pólska landsliðið.

Síðasti leikur þar sem honum tókst ekki að skora var úrslitaleikurinn í heimsbikarkeppni félagsliða 11. febrúar þegar Bayern sigraði Tigres frá Mexíkó 1:0 með marki frá Benjamin Pavard.

Robert Lewandowski fagnar eftir að hafa skorað sitt 41. mark …
Robert Lewandowski fagnar eftir að hafa skorað sitt 41. mark og slegið markametið á einu tímabili í þýsku 1. deildinni í lokaumferð hennar í maí. AFP

Fjórtán leikir og 22 mörk

Frá þeim tíma hefur Lewandowski spilað fjórtán leiki fyrir Bayern og pólska landsliðið, skorað í þeim öllum og  gert samtals 22 mörk. Hann missti úr tæpan mánuð vegna meiðsla eftir að hafa meiðst í landsleik gegn Andorra í lok mars, eftir að hafa skorað tvívegis í 3:0 sigri Pólverja.

Á þessum tíma hefur Levandowski skorað þrjár þrennur fyrir Bayern í þýsku 1. deildinni, gegn Dortmund, Stuttgart og Borussia Mönchengladbach.

Hann skoraði í báðum landsleikjunum sem hann spilaði i mars, tvö gegn Andorra eins og áður sagði og þar á undan eitt mark í 3:3 jafntefli Pólverja gegn Ungverjum.

Lewandowski sat hinsvegar allan tímann á varamannabekknum þegar Pólverjar gerðu jafntefli við Rússa í vináttulandsleik í Wroclaw 1. júní, 1:1.

Viðbúið er að hann taki þátt í leiknum gegn Íslandi á morgun enda er þetta síðasti leikur Pólverja áður en þeir mæta Slóvakíu í fyrsta leik sínum á EM næsta mánudag.

Íslendingum erfiður í Varsjá

Lewandowski var Íslendingum erfiður síðast þegar þjóðirnar mættust en það var í vináttulandsleik í Varsjá 13. nóvember 2015, skömmu eftir að Ísland tryggði sér sæti í lokakeppni EM 2016. Pólverjar unnu leikinn 4:2 eftir að Ísland var 1:0 yfir í hálfleik, og skoraði Lewandowski tvö marka þeirra í seinni hálfleiknum og lagði eitt upp.

Markaskor þessa 32 ára gamla framherja er annars með eindæmum. Hann hefur skorað 66 mörk í 118 landsleikjum fyrir Pólland og er bæði leikja- og markahæsti landsliðsmaður þjóðarinnar frá upphafi.

Þá hefur hann skorað 277 mörk í 350 leikjum í þýsku 1. deildinni, fyrir Bayern og Dortmund, og fyrir sömu tvö félög hefur Lewandowski skorað 397 mörk í 516 mótsleikjum.

Lewandowski verður á fornum slóðum í leiknum í dag því hann lék tvö ár með Lech Poznan áður en hann fór til Dortmund í Þýskalandi og skoraði þá 32 mörk í 58 leikjum í pólsku úrvalsdeildinni fyrir félagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert