Að lifa með veirunni getur þýtt margt

Bólusett við kórónuveirunni í Los Angeles.
Bólusett við kórónuveirunni í Los Angeles. AFP

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir mikilvægt að hafa það í huga, að hugsa þurfi aðgerðir og takmarkanir vegna kórónuveirunnar út frá fleiri þáttum en bara hversu margir hlutfallslega veikist alvarlega vegna veirusmits í kjölfar bólusetningar.

„Það þurfa ekki nema eitt til tvö prósent að fá alvarleg veikindi í kjölfar sýkingar og ef við fáum mjög mikla útbreiðslu á smitum, þá er þetta töluverður fjöldi sem verður fyrir þessum alvarlegu veikindum,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Spurður hvort réttlætanlegt sé að skerða frelsi hins almenna borgara til athafna og frjálsra ferða vegna tiltölulega lítils viðkvæms hóps segir Þórólfur: „Þetta er bara stór spurning og hefur verið sú spurning sem faraldurinn hefur að mestu snúist um.“

Hann bendir þá á að mikilvægt sé að muna hvað alvarleg veikindi séu og hvað þau feli í sér. Það sé „samfélagsleg ábyrgð okkar að vernda þá sem eru viðkvæmari fyrir“ og bendir hann á að við reynum yfirleitt að gera það á flestum sviðum.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lifað með veirunni

Lengi hefur framvarðarsveitin í baráttunni við veiruna nefnt að samfélagið þurfi að búa sig undir að lifa með veirunni. Spurður hvort við séum að sigla inn í það tímabil segir Þórólfur:

„Að vissu leyti já, en það getur þýtt mjög margt. Við höfum reynt að sigla milli skers og báru í því að beita ekki of íþyngjandi aðgerðum en að sama skapi reyna að halda henni niðri, það er að lifa með veirunni.“

Hann bendir einnig á að á meðan veiran sé erlendis að dreifa sér og ný afbrigði spretti upp með nýjum sýkingum þurfum við sífellt að huga að áðurnefndum hlutum.

„Að vera tilbúin að grípa til aðgerða þegar þarf; það er að lifa með veirunni.“

Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engar takmarkanir gangi ekki upp

Í gær voru kynntar nýjar reglur á landamærunum sem taka gildi eftir tæpa viku. Sitt sýnist hverjum um ágæti þeirra og hvort tilefni sé til að grípa til ráðstafana. 

Er það ógerningur að vera með engar takmarkanir innanlands og hafa allt opið á landamærum?

„Já ég held að það gangi ekki upp. Ef við viljum engar aðgerðir innanlands þá þurfum við alveg örugglega einhverjar takmarkanir á landamærunum, og sömuleiðis ef við viljum alveg opin landamæri, þá þurfum við sennilegast einhverjar takmarkanir innanlands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert