Forstjóri hollenska flugfélagsins KLM, Marjan Rintel, hvetur farþega til að nýta sér lestarsamgöngur fremur en að hoppa upp í flugvél fyrir ákveðnar stuttar flugferðir til að draga úr mengun. Að hennar mati þarf fluggeirinn að hætta að horfa á lestarsamgöngur sem samkeppnisaðila.

„Ef þér er alvara að ná sjálfbærnimarkmiðum þínum, þá er lestin ekki samkeppnisaðili. Við þurfum að vinna saman,“ segir hún í viðtali við Financial Times.

Rintel, sem var ráðin forstjóri flugfélagsins í sumar, segist nota lestarsamgöngur þegar hún ferðast frá Amsterdam, þar sem starfsstöðvar félagsins eru, til höfuðstöðva móðurfélagsins Air France-KLM í París.

Vill efla sambandið við ríkisrekna lestarfélagið

Hollenska ríkisstjórnin tilkynnti í júní áform um að fækka flugferðum frá Schiphol flugvellinum um meira en 10% sem mun líklega takmarka vöxt KLM og fækka styttri flugferðum.

Rintel segir að KLM hafi þegar tekið frá fjölda sæta á lestarferðum á milli Amsterdam og Brussel eða Parísar. Hún brýndi fyrir flugfélaginu að bæta viðskiptasamband sitt við ríkisrekna lestarfélagið Nederlandse Spoorwegen, þar sem hún var forstjóri áður en hún tók við starfinu hjá KLM.

Hún segir að flugfélagið sé að horfa til þess að auðvelda farþegum að kaupa flug og lestarmiða í sömu bókun. Þá horfi vonast hún til að samræma farangursþjónustu þannig að farþegar geta skilað inn farangri á tilteknum flugvelli og sótt hann í lok lestarferðar.

Rintel tók þó fram að hún hafi engan áhuga á að KLM komi með beinum hætti að rekstri lestarfélagsins.

Í umfjöllun FT segir að ríkisstjórnir víða um Evrópu vinni nú að því að draga úr fjölda styttri flugferða og hvetja fólk til að ferðast fremur með lestum með það í huga að draga úr kolefnislosun.

Árið 2020 stöðvaði systurflugfélagið Air France innanlandsflug á þeim leiðum þar sem farþegar höfðu kost á lestar- eða rútuferðum með ferðatíma undir tveimur og hálfum klukkustundum. Um var að ræða lið í viðræðum við frönsk stjórnvöld um stuðningsaðgerðir í Covid-faraldrinum.

Franska ríkisstjórnin lögfesti síðar bannið á styttri flugferðir sem nær eingöngu til þriggja flugleiða frá París en tengiflug eru undanþegin banninu.