Allt sem þú þarft að vita um Ryder-bikarinn

Steve Stricker liðsstjóri Bandaríkjanna og Collin Morikawa. Morikawa er nýliði …
Steve Stricker liðsstjóri Bandaríkjanna og Collin Morikawa. Morikawa er nýliði í keppninni en frá því síðasta keppni fór fram hefur hann unnið tvö risamót: PGA-meistaramótið og Opna breska meistaramótið. AFP

Keppt verður um Ryder-bikarinn næstu þrjá daga en keppni hefst í dag. Ekki hefur verið leikið um bikarinn í þrjú ár þar sem keppni var frestað í fyrra vegna heimsfaraldursins. 

Hvar er leikið? Á  Whistling Straits-vellinum í Wisconsin í Bandaríkjunum. Í keppnisgolfi hjá bestu kylfingum heims er völlurinn þekktur fyrir að hafa verið vettvangur PGA-meistaramótsins 2004, 2010 og 2015 en það er eitt risamótanna. 

Hvenær er keppt? Keppt er um Ryder-bikarinn annað hvert ár og yfirleitt í september. Í þetta skipti liðu þrjú ár á milli vegna heimsfaraldursins. Síðast var keppt í Frakklandi árið 2018 og þá vann Evrópa. Síðast var því keppt í Bandaríkjunum 2016 og þá vann Bandaríkin. 

Hvernig er fyrirkomulagið? Fyrirkomulagið er holukeppni en ekki höggleikur sem notast er við á risamótunum og Ólympíuleikunum. Höggafjöldinn er því ekki lagður saman heldur hvort liðið vann fleiri holur í hverri viðureign. Í holukeppni þarf ekki endilega að leika 18 holur. Úrslitin geta ráðist fyrr á hringnum. Í Ryder-bikarnum er fyrirkomulagið þannig að hvort lið fær hálfan vinning ef jafnt er eftir 18 holur. 

Hvernig er dagskráin? Á föstudegi eru fjórar viðureignir í fjórmenningi/foursome og fjórar í betri bolta/fourball. Á laugardegi eru einnig fjórar viðureignir í fjórmenningi/foursome og fjórar í betri bolta/fourball. Á sunnudegi eru tólf viðureignir í tvímenningi/singles. 

Hve marga vinninga þarf? 28 vinningar eru í boði og Bandaríkin þurfa því að ná 14 ½ til að vinna bikarinn. Evrópa vann síðast þegar keppnin fór fram 2018 og nægir þar af leiðandi jafntefli til að halda bikarnum. 8 vinningar eru í boði á föstudegi, aðrir 8 vinningar á morgun og loks 12 á sunnudaginn. Tveir spila saman í betri bolta og fjórmenningi fyrstu tvo dagana. 12 leikmenn eru í hvoru liði og á lokadeginum spila þeir allir maður á móti manni. Þegar fjórir leikir eru í gangi á föstudegi og laugardegi er hægt að hvíla fjóra í hvert skipti. 

Hvað er fjórmenningur? Tveir spila saman í hvoru liði og slá annað hvert högg á hverri holu. Yfirleitt er reglan sú að þeir slá upphafshöggið á öðrum hverjum teig burt séð frá því hvor átti síðasta púttið á holunni á undan. 

Hvað er fjórbolti? Tveir spila saman í hvoru liði. Þeir spila báðir holuna en betra skorið telur. Þegar bestu kylfingar heims eru annars vegar býður þetta fyrirkomulag upp á mikla flugeldasýningu. Ef annar kylfingurinn í liðinu er í ágætum málum, ætti að vera nokkuð öruggur um par, þá getur hinn til dæmis ráðist að holunni í innahögginu og reynt við fuglinn. Með öðrum orðum þá taka menn oft meiri áhættu í þessu fyrirkomulagi. 

Hvað er tvímenningur? Þá er einfaldlega leikin holukeppni maður á móti manni. 

Hvernig er holukeppni frábrugðinn? Þegar keppt er í holukeppni getur andrúmsloftið verið allt öðruvísi en í hefbundnum mótum. Fyrir vikið skiptir ekki endilega öllu máli í Ryder-bikarnum hvar kylfingarnir eru á heimslista vegna þess að langflest mót sem telja mest til stöðu á heimslista eru mót þar sem notast er við höggleik. Í hefðbundnum golfmótum er keppt á móti öllum sem ræstir eru út en í holukeppni keppirðu eingöngu við þann sem er með þér í ráshópi og getur einbeitt þér að því. Auk þess geta verulega slæm mistök ekki verið eins afdrifarík. Þ.e.a.s viðkomandi tapar þá bara einni holu sem hefur þá minni áhrif en að fá til dæmis 7 högg á holu á 18 holu hring í höggleik. 

Af hverju er lokadagurinn öðruvísi? Þá er eins og áður segir leikið maður á móti manni sem ekki er gert hina dagana. Þegar allir hafa verið ræstir út á sunnudegi, þá eru tólf leikir í gangi á vellinum þegar mest lætur. Þá skapast gjarnan mikil spenna varðandi heildarstöðuna í keppninni þegar fólk getur fylgst með stöðunni í hverri viðureign fyrir sig. 

Af hverju er svo mikil taugaspenna? Kylfingum sem keppt hafa um Ryder-bikarinn er tíðrætt um spennuna sem myndast í keppninni um magnþrungið andrúmsloft. Engin peningaverðlaun eru í boði ólíkt stórmótum í golfi. Hins vegar hefur það mikil áhrif á kylfingana að keppa fyrir lið og sína þjóð. Þeir eru íþróttamenn í einstaklingsíþrótt en í þessu tilfelli eru þeir hluti af liði. Ábyrgðartilfinningin er önnur en þegar þeir keppa fyrir sjálfa sig í hefðbundnum mótum. Svo hefur það kannski eitthvað að segja að fólk í flestum heimshornum fylgist með í sjónvarpi. 

Hverjir eru liðsstjórar? Steve Stricker er liðsstjóri bandaríska liðsins og Padraig Harrington er liðsstjóri evrópska liðsins. 

Hvernig eru liðin valin? Notast er við sitt hvort fyrirkomulagið hjá liðunum. Stricker velur sex kylfinga en sex unnu sig sjálfkrafa inn í liðið með árangri sínum. Níu gera það hjá Evrópu og Harrington valdi þar af leiðandi þrjá til viðbótar. Um tíma var fyrirkomulagið með þeim hætti að tíu unnu sig inn í hvort lið og liðsstjórarnir völdu tvö hvor um sig. Á síðustu árum hefur vægi liðsstjóranna því aukist. 

Lið Banda­ríkj­anna:

Coll­in Morikawa

Dust­in John­son

Bry­son DeCham­beau

Brooks Koepka

Just­in Thom­as

Pat­rick Cantlay

Tony Finau

Xand­er Shauf­fele

Jor­d­an Spieth

Harris English

Daniel Ber­ger

Scottie Scheffler

Padraig Harrington liðsstjóri evrópska liðsins. Hann kom til Íslands og …
Padraig Harrington liðsstjóri evrópska liðsins. Hann kom til Íslands og lék á Hvaleyrinni árið 2002. AFP

Lið Evr­ópu:

Jon Rahm, Spáni

Rory McIl­roy, N-Írlandi

Vikt­or Hov­land, Nor­egi

Paul Casey, Englandi

Tommy Fleetwood, Englandi

Tyr­rell Hatt­on, Englandi

Bernd Wies­ber­ger, Aust­ur­ríki

Matt Fitzp­at­rick, Englandi

Lee Westwood, Englandi

Shane Lowry, Írlandi

Sergio Garcia, Spáni

Ian Poulter, Englandi

Er hefð fyrir keppninni? Fyrst var keppt um Ryder-bikarinn árið 1927 í Massachusetts. Keppnin var á milli Bandaríkjanna annars vegar og liðs frá Bretlandi og Írlandi hins vegar. Keppnin tók töluverðum breytingum þegar lið Bretlands og Írlands varð að liði Evrópu árið 1979. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert