Haraldur og Sonja í sóttkví

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning eru í sóttkví ásamt 14 …
Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning eru í sóttkví ásamt 14 af 160 starfsmönnum konungshallarinnar eftir að starfsmaður þar greindist smitaður af kórónuveiru. Þau eru bæði einkennalaus. Ljósmynd/Konungshöllin/Sven Gj. Gjeruldsen

Haraldur Noregskonungur og Sonja drottning eru komin í sóttkví eftir að starfsmaður við konungshöllina í Ósló greindist smitaður af kórónuveirunni. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá konungshöllinni í dag.

Norska ríkisútvarpið NRK kveðst hafa vitneskju um að starfsmaðurinn smitaði hafi verið í návígi við drottninguna áður en upp komst um smitið en þau Haraldur eru þó með öllu einkennalaus. Fjórtán af 160 starfsmönnum hallarinnar sæta auk konungshjónanna sóttkví eftir að upp komst um smitið.

Fylgja öllum fyrirmælum

„Vegna sóttkvíarinnar mun hans hátign konungurinn stjórna ríkisráðsfundi á morgun gegnum síma frá Konungsbústaðnum á Bygdø,“ segir í tilkynningu konungshallarinnar, en ríkisráðsfundir eru haldnir vikulega, á föstudögum, og fundar konungur þá með ríkisstjórn landsins.

Þar kemur einnig fram að Hákon krónprins hlaupi í skarðið fyrir föður sinn á morgun og taki á móti Kersti Kaljulaid Eistlandsforseta sem þá kemur í opinbera heimsókn til Noregs.

Starfsfólk konungshallarinnar fylgir öllum kórónutilmælum stjórnvalda hvað snertir grímunotkun, fjarlægð milli fólks, hreinlæti og heimavinnu, er að lokum tekið fram í fréttatilkynningu hallarinnar.

Fréttatilkynningin

NRK

VG

Aftenposten

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert