Innlent

Spáð tals­verðri snjó­komu með til­heyrandi sam­göngu­truflunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður frekar kalt á landinu í dag og næstu daga. Hitaspákortið er fyrir kl. 12 á hádegi í dag.
Það verður frekar kalt á landinu í dag og næstu daga. Hitaspákortið er fyrir kl. 12 á hádegi í dag. Veðurstofa Íslands

Í dag verður norðlæg átt, 8 til 15 metrar á sekúndu, en hægari vindur um austanvert landið. Spáð er dálítilli vætu suðaustantil framan af degi og éljum fyrir norðan en bjart með köflum suðvestantil, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. Hitinn verður 1 til 7 stig, mildast syðst.

Seint í kvöld og nótt gengur síðan úrkomubakki inn á norðanvert landið:

„Hann liggur í svölu norðanlofti, og mætti því ef til vill ætla að úrkoman félli öll sem snjór. Sjórinn er hins vegar enn tiltölulega hlýr á þessum tíma árs, svo úrkoman verður líklega slydda eða rigning víðast hvar við ströndina. Þegar komið er upp fyrir sjávarmál má hins vegar búast við talsverðri snjókomu með tilheyrandi samgöngutruflunum,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.

Norðan 10 til 15 metrar á sekúndu á morgun og skúrir eða él norðanlands en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Síðdegis lægir svo víða og léttir til á norðvestanverðu landinu.

Veðurhorfur á landinu:

Norðlæg átt 8-15 m/s, en hægari um landið austanvert. Dálítil væta suðaustantil, og él fyrir norðan, en bjart með köflum suðvestanlands. Hiti 0 til 7 stig, mildast syðst. Rigning eða slydda, og sums staðar snjókoma norðantil seint í kvöld og nótt.

Norðan 10-15 og skúrir eða él norðanlands á morgun, en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Lægir víða síðdegis, og léttir til um landið norðvestanvert.

Á fimmtudag:

Norðan 8-15 m/s og skúrir eða él N-lands, en yfirleitt léttskýjað sunnan heiða. Lægir víða síðdegis, og léttir til um landið NV-vert. Hiti 0 til 7 stig yfir daginn, mildast syðst.

Á föstudag:

Hæg breytileg átt og víða bjartviðri. Hiti 2 til 7 stig, en um og undir frostmarki fyrir norðan. Vaxandi suðaustanátt og þykknar upp S- og V-lands seinnipartinn.

Á laugardag:

Suðaustan 10-18 og rigning, en þurrt að kalla NA-til. Hiti 4 til 9 stig.

Á sunnudag:

Minnkandi suðlæg átt og stöku skúrir, en rigning með köflum A-lands. Hiti breytist lítið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×