Ferðamönnum með evrópsk vottorð fjölgar hægt og bítandi

Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli.
Ferðamenn á Keflavíkurflugvelli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega milljón Evrópubúar hafa sótt stafrænt evrópskt Covid-19 vottorð samkvæmt framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Arngrímur Guðmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í flugstöðvardeild lögreglunnar á Suðurnesjum, segir að þegar séu ferðamenn farnir að sýna slík vottorð við komuna til Íslands. 

„Þetta er rétt að byrja, við erum byrjuð að taka við þeim og það eru að týnast svona eitt og eitt hingað. Við eigum von á því að uppúr mánaðarmótunum júní/júlí fari þetta af fullu í gang og við erum alveg tilbúin að taka við þeim og getum skannað þau,“ segir Arngrímur. 

„Við höfum verið tilbúin fyrir þetta frá og með fyrsta júní og þau eru núna farin að sjást og þeim fer hægt og bítandi fjölgandi. Við eigum svo von á mikilli aukningu um mánaðarmótin, það eru mörg lönd sem eru núna að klára að setja verkefnið upp,“ segir Arngrímur. 

Tilraunaverkefni um móttöku á stafrænum evrópskum Covid-19 vottorðum hófst hér á landi 2. júní. Samstaða um vottorðið náðist innan Evrópusambandsins með samþykkt reglugerðar 20. maí sem verður tekin upp í EES-samninginn með formlegri gildistöku verkefnisins 1. júlí. 

Stafrænu vottorðin innihalda upplýsingar um bólusetningar gegn Covid-19, niðurstöður um PCR-vottorð eða fyrri Covid-19 sýkingu. Níu aðildarríki Evrópusambandsins hafa þegar hafið útgáfu vottorðanna; Búlgaría, Króatía, Tékkland, Danmörk, Þýskaland, Grikkland, Litháen, Pólland og Spánn. 

CNN greinir frá því að Bretland eigi samkvæmt heimildum fjölmiðilsins í viðræðum við Evrópusambandið um þátttöku í verkefninu. Þá er líklegt að Sviss taki einnig þátt. Þá er stefnt að því að íbúum fleiri ríkja utan Evrópu, t.d. Bandaríkjanna, verði hleypt að verkefninu eftir því sem fram líður. Þá mun hvert aðildarríki líklega sjá ferðamönnum sem þangað koma fyrir vottorði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert