Óvissa með þátttöku lykilmanna landsliðsins

Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson leika báðir í …
Jóhann Berg Guðmundsson og Gylfi Þór Sigurðsson leika báðir í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óvíst er hvort þeir Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson verða með íslenska landsliðinu í knattspyrnu þegar liðið mætir Þýskalandi, Armeníu og Liechtenstein í undankeppni HM 2022 sem hefst í lok mars.

Þetta staðfesti Arnar Þór Viðarsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í Dagmálum, nýjum frétta- og dægurmálaþætti Morgunblaðsins, í dag.

Ísland mætir Þýskalandi í fyrsta leik sínum í J-riðli undankeppninnar hinn 25. mars í Duisburg  en strangar sóttvarnareglur gilda í Evrópu í dag vegna kórónuveirufaraldursins.

„Staðan er þannig í dag að við vitum ekki einu sinni hvaða leikmenn við getum fengið,“ sagði Arnar um mögulegan leikmannahóp Íslands fyrir næstu þrjá landsleiki í Dagmálum.

„Það er kórónuveirufaraldur og það eru mismunandi reglur í mismunandi löndum. UEFA og knattspyrnusamböndin náðu mjög vel utan um þetta í síðasta landsleikjaglugga en það hefur ýmislegt breyst síðan þá, eins og til dæmis að Bretland er ekki lengur í Evrópusambandinu.

Það er óvissa í kringum það og það er ekki vitað með leikmenn frá Englandi sem dæmi, hvert mega þeir fara og hvað gerist þegar þeir koma til baka. Þetta eru alls ekki aðstæður sem maður myndi óska sér. 

Liverpool þurfti að spila gegn RB Leipzig í Ungverjalandi vegna sóttvarnareglna og ef það næst ekki samkomulag milli þýska sambandsins, enska sambandsins og UEFA þá gæti það alveg orðið raunin að leikmenn frá Englandi fái ekki að fara í verkefnin en vonandi ekki.

Í Noregi þarftu að fara í sjö daga sóttkví þegar þú kemur til landsins og reglur FIFA kveða á um að ef leikmenn þurfa að fara í sóttkví við heimkomuna til landsins sem þeir spila í þá mega félögin neita þeim um að fara í landsliðsverkefni,“ bætti Arnar við.

Gylfi Þór, sem er samningsbundinn Everton, og Jóhann Berg, sem leikur með Burnley, hafa verið lykilmenn í sóknarleik íslenska landsliðsins undanfarin ár og ljóst að fjarvera þeirra yrði afar slæm fyrir íslenska liðið.

Þátturinn verður aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins föstudaginn 5. mars inn á mbl.is.

Arnar Þór Viðarsson ræðir við Bjarna Helgason í Dagmálum í …
Arnar Þór Viðarsson ræðir við Bjarna Helgason í Dagmálum í dag. mbl.is/Brynjólfur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert