Mané bjargvættur Senegala

Sadio Mané í góðu færi í leik Senegal og Simbabwe …
Sadio Mané í góðu færi í leik Senegal og Simbabwe í dag. AFP

Sadio Mané, leikmaður Liverpool, tryggði Senegal nauman sigur á Simbabve, 1:0, á Afríkumótinu í knattspyrnu í Kamerún í dag.

Simbabve barðist með kjafti og klóm og virtist vera að næla í gott stig gegn einu af sigurstranglegasta liði mótsins þegar ógæfan dundi yfir þegar nokkrar sekúndur voru eftir af uppgefnum uppbótartíma.

Kelvin Madzongwe, varnartengiliður Simbabve, henti sér þá fyrir skot innan vítateigs og hafnaði boltinn í handlegg hans.

Vítaspyrna var dæmd og eftir athugun í VAR var ákveðið að halda sig við dóminn þó harkalegur mætti teljast.

Mané steig á vítapunktinn og skoraði af öryggi úr spyrnunni á sjöundu mínútu uppbótartíma og tryggði Senegal 1:0 sigur.

Senegal var án níu leikmanna, þar af aðalmarkvarðarins Édouard Mendy og fyrirliðans Kalidou Koulibaly, en sex þeirra smituðust í síðustu viku og þrír um liðna helgi.

Kundai Benyu, miðjumaður Vestra hér á landi, lék allan leikinn fyrir Simbabve.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert