„Fólk ætti frekar að taka þátt í vinnunni“

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Hari

Rektor Háskóla Íslands segir háskólann vera bundinn fyrirliggjandi samkomulögum um verkefnamiðuð vinnurými, það hafi verið forsenda þess að fá Hótel Sögu til umráða. Verkefnið sé enn í mótun og jafnframt hafi engar ákvarðanir verið teknar um framkvæmdir í Árnagarði.

Arn­grím­ur Vídalín Stef­áns­son, lektor í ís­lensk­um bók­mennt­um fyrri alda við Há­skóla Íslands, hefur gagnrýnt áform háskólans um uppsetningu opinna eða verkefnamiðaðra vinnurýma í stað einkaskrifstofa, harðlega.  

Gagnrýnin snýr einna helst að tilfærslu menntavísindasviðs í rými Sögu, nýrisið Hús íslenskra fræða og breytingu skrifstofa í opin vinnurými í Árnagarði.

 „Í raun og veru er sú aðstaða sem á að bjóða okk­ur upp á gjör­sam­lega til­gangs­laus, við mun­um ekki nota hana. Þetta hef­ur verið reynt við há­skóla er­lend­is, til dæm­is í Malmö. Það hef­ur þurft að snúa við þess­ari þróun alls staðar þar sem þetta hef­ur verið reynt vegna þess að þessi aðstaða hrein­lega virk­ar ekki. Það er svo­lítið eins og Framkvæmdasýsla rík­is­ins hafi hugsað ein­hverja reglu fyr­ir op­in­bera vinnustaði sem að í raun og veru virk­ar ekki fyr­ir Há­skóla Íslands,“ sagði Arn­grím­ur í samtali við mbl.is. Þá velti hann einnig upp möguleika á verkfalli, fari allt á versta veg.

Málið enn í vinnslu 

Spurður hvað honum finnist um gagnrýni síðustu daga segir rektor háskólann bundinn fyrri samkomulögum en sé auðvitað annt um að háskólinn sé vinnustaður sem gott sé að vera á.

„Ég legg mikla áherslu á það í þessu sambandi að hlusta á starfsfólkið. Við reynum að gera það besta sem hægt er miðað við þá stöðu sem við erum í. Ég vil líka leggja áherslu á að þetta mál er enn í vinnslu. Það er ekki búið að skipuleggja hvernig til dæmis menntavísindasvið verður núna á næsta ári þegar stefnt er að því að flytja inn og síðan hvernig heilbrigðisvísindasvið verður þegar það flytur inn eftir nokkur ár. Hvoru tveggja er í vinnslu,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Ekki verið að gjörbreyta öllu á þessari stundu

Þá segir hann fyrirmæli um verkefnamiðuð vinnurými koma til út frá samningum fasteignafélags háskólans sem fari með eignarhald og umsýslu fasteigna HÍ og fjármálaráðuneytisins.

„Það var bara þannig þegar við fengum Sögu til umráða, þá var þetta skilyrði að þá yrði þessum verkefnamiðuðu vinnurýmum fylgt eftir, það er ákveðinn sveigjanleiki þar innan og við erum bara þar, þetta er í mótun. Það er ekki þannig að við getum sagt okkur frá þessu, skilningurinn var að þetta yrði gert,“ segir Jón Atli.

„Viðmið um verkefnamiðuð vinnurými gilda um nýbyggingar og flutninga og breytingar en það er ekki verið að tala um það að gjörbreyta öllu í HÍ á þessari stundu svo það sé á hreinu.“

Spurður hvað honum þyki um yfirlýsingar varðandi mögulegt verkfall segir hann þær ótímabærar.

„Ég held það sé bara allt of snemmt að vera að tala um eitthvað svoleiðis. Þetta er bara í mótun og ég held að fólk ætti frekar að taka þátt í vinnunni en að vera með yfirlýsingar sem eru ótímabærar,“ segir Jón Atli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert