Góð afkoma of oft litin neikvæðum augum

Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég held að þarna sé um að ræða einhverjar áhyggjur sem ég get ekki tekið undir,“ segir Bjarni Benediktsson fjár­mála- og efna­hags­ráðherra, um áhyggjur Bandalags háskólamanna (BHM) sem segir skattgreiðendur bera uppi 1.000 milljarða skuld ríkis og sveitarfélaga í kjölfar heims­far­ald­urs á sama tíma og marg­ar at­vinnu­grein­ar hér á landi sjái metaf­komu.

Bjarni segir samfélagið standa saman að sameiginlegum verkefnum og að tekjuöflunarkerfi ríkisins sé sveiflujafnandi. 

„Þegar fyrirtækjum gengur illa borga þau ekki tekjuskatt. Þegar þeim gengur vel borga þau tekjuskatt. Þess vegna finnst mér þetta vera frekar þröngsýn nálgun á samfélagsmyndina sem við höfum komið okkur saman um og hefur skilað bæði einhverjum bestu lífskjörum sem fyrirfinnast og mjög sterkum ríkissjóði, vel fjármögnuðum og sjálfbærum,“ segir Bjarni.

BHM leggur til við stjórnvöld að hækka skatta á eignir og fjármagnstekjur og draga lækkun bankaskatts til baka. Það þætti Bjarna óskynsamleg ráðstöfun og segir að slíkur skattur myndi koma verst niður á launafólki í landinu.

Góð afkoma fyrirtækja forsenda framfara

„Þessi ríkisstjórn beitti sér fyrir því að hækka almennu skattprósentuna í fjármagnstekjuskattinum og við hækkuðum um leið frítekjumarkið. Þegar kerfið í heild sinni er tekið til skoðunar og allar undanþágur teknar með í samanburði við önnur lönd þá er fjármagnstekjuskattur að mörgu leyti sambærilegur og á Norðurlöndunum,“ segir Bjarni.

Spurður hvort honum þyki umsögn og ráðleggingar BHM almennt slæmar segir Bjarni umræðu um hagnað í rekstri fyrirtækja mikla einföldun.

„Það er allt of algengt að það sé litið á góða afkomu fyrirtækis sem neikvæðan hlut, næstum eins og samfélagsmein. Þetta er algjör forsenda uppbyggingar, framfara og góðrar launaþróunar í landinu. Hagnaður fyrirtækja er iðulega slitinn úr öllu samhengi við stærð efnahags og reksturs og einblítt eingöngu á fjárhæðina eins og sér. Það er afskaplega erfitt að bregðast við svona vanþroska umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK