Sport

Snorri Barón: Uppáhalds „Dóttir“ allra komin með grænt ljós

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir í myndatöku fyrir íþróttavörulínu sína og WIT Fitness.
Sara Sigmundsdóttir í myndatöku fyrir íþróttavörulínu sína og WIT Fitness. Instagram/@sarasigmunds

CrossFit konan Sara Sigmundsdóttir fékk gleðifréttir í gær nákvæmlega sex mánuðum eftir að hún gekkst undir krossbandsaðgerð á hné.

Sara sagði frá þessu á Instagram síðu sinni og umboðsmaður hennar, Snorri Barón Jónsson , vakti líka athygli á fréttunum.

Instagram/@snorribaron

„Uppáhalds „Dóttir“ allra komin var að fá grænt ljós til að byrja að æfa af fullum krafti nákvæmlega sex mánuðum eftir krossbandsaðgerð og rétt í tíma til að hefja lokaundirbúning fyrir Dubai CrossFit Championship,“ skrifaði Snorri Barón og deildi færslu Söru.

„Til hamingju með sex mánaða afmæli nýja krossbandið mitt og bestu þakkir til þín fyrir að standast hnéprófið hjá læknaliðinu,“ skrifaði Sara.

„Þakkir jafnframt til þín fyrir að leyfa mér að snara í fyrsta sinn í níu mánuði, hlaupa úti í sólinni í Dúbaí, setja fulla þyngd á slána og síðast en ekki síst að gefa mér meiri vídd en ég hafði áður,“ skrifaði Sara.

„Ég er mjög þakklát fyrir styrk þinn og endurkomu. Vinsamlegast haltu áfram á sömu braut,“ skrifaði Sara og bætir meðal annars við myllumerkinu „Sjáið hver er komin aftur“ ásamt nokkrum fleirum.

Sara setti síðan myndband af sér að lyfta á fullu en það má sjá hér fyrir neðan.

Fyrsta mótið hjá henni er Dubai CrossFit Championship stórmótið sem fer fram 16. til 18. desember næstkomandi. Sara var ein af tuttugu CrossFit konum sem fékk boð á mótið en hún vann mótið þegar það fór fram síðasta í lok árs 2019.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×