Kann nokkra spilagaldra

Jordan Henderson segist vera klár í slaginn með enska landsliðinu.
Jordan Henderson segist vera klár í slaginn með enska landsliðinu. AFP

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool og enska landsliðsins í knattspyrnu, skaut á Roy Keane, fyrrverandi fyrirliða Manchester United, í viðtali við Team Talk á dögunum.

Keane gagnrýndi Henderson og valið á honum í enska landsliðshópinn fyrir lokakeppni EM sem hefst á föstudaginn á sjónvarpsstöðunni Sky Sports í vikunni.

Henderson lék síðast með Liverpool í lok febrúar á þessu ári og hefur verið frá vegna meiðsla á nára síðan þá.

Keane efaðist um að Henderson væri tilbúinn í Evrópumeistaramótið og ýjaði að því að hann væri í hópnum til þess að framkalla spilagaldra, liðsfélögum sínum til skemmtunar.

„Ég kann nokkra spilagaldra sem ég mun ekki hika við að nota,“ sagði Henderson.

„Það vilja allir leikmenn spila og ég er ekki hérna bara til þess að vera einhver stuðningsfulltrúi fyrir leikmenn liðsins. Ég vil hjálpa liðinu að ná markmiðum sínum á mótinu.

Roy gaf mér tækifæri á sínum tíma og ég er honum þakklátur. Hann má segja það sem hann vill en ég og Gareth [Southgate] þekkjum stöðuna betur og vitum hversu tilbúinn ég er.

Ég hef vissulega verið að æfa einn og það vantar upp á leikformið en ég tel mig geta hjálpað liðinu og þess vegna er ég hérna,“ bætti Henderson við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert