Setti hann heimsmet? Þrjú mörk á 35 sekúndum

Hampus Wanne var lykilmaður hjá Svíum á HM.
Hampus Wanne var lykilmaður hjá Svíum á HM. AFP

Sænska blaðið Aftonbladet veltir því fyrir sér hvort sænski handknattleiksmaðurinn Hampus Wanne hafi ekki sett heimsmet í gær þegar hann lék með Flensburg gegn París SG í Meistaradeild Evrópu.

Hann skoraði þrjú mörk á 35 sekúndum strax á þriðju mínútu leiksins, það fyrsta þegar 2,13 mínútur voru búnar af leiknum og það þriðja þegar 2,48 mínútur voru búnar.

Wanne sagði við Aftonbladet að hann hefði ekki áttað sig á því að svona skammur tími hefði liðið á milli markanna en sér hefði verið sagt það eftir leikinn.

„Ég hafði eiginlega ekki hugmynd. Maður áttar sig ekkert á tímanum þegar maður er inni á vellinum. En ég hef allavega aldrei verið jafnfljótur að skora þrjú mörk!" sagði Wanne, sem lék mjög vel með sænska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Egyptalandi í síðasta mánuði. Hann skoraði alls átta mörk í leiknum.

Mörkin vógu þungt því Flensburg vann góðan sigur á PSG, 28:27, og er nú fimm stigum á undan franska stórveldinu en liðin eru í öðru og þriðja sæti A-riðils Meistaradeildarinnar, á eftir Sigvalda Birni Guðjónssyni og samherji í Kielce frá Póllandi sem er á toppnum.'

Alexander Petersson lék ekki með Flensburg í leiknum vegna meiðsla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert