Hjónin Ása María Reginsdóttir og Emil Hallfreðsson, knattspyrnumaður, munu á vormánuðum 2022, í samstarfi við Gleðipinna, opna nýjan pizzastað á Suðurlandsbraut, þar sem Eldsmiðjan er til húsa í dag. Veitingastaðurinn mun heita OLIFA - La Madre Pizza, en auk veitingastaðarins á Suðurlandsbraut mun minni útgáfa staðarins opna í nýrri verslun Krónunnar í Skeifunni.

„Við Emil höfum ástríðu fyrir góðum og vönduðum hráefnum eftir að hafa búið á Ítalíu í öll þessi ár. Hér höfum við fengið ljúft og gott mataruppeldi sem hefur mótað okkur mjög. OLIFA vörurnar hafa fengið frábærar viðtökur heima og það má segja að OLIFA - La Medre Pizza sé loks fyrsta skrefið í því að bjóða Íslendingum til borðs með okkur,“ segir Ása María, framkvæmdastjóri OLIFA. Eitt af gildum OLIFA er einmitt er að hvetja alla aldurshópa að koma saman til borðs og njóta góðs matar í félagsskap hvors annars.

Fyrirtækið OLIFA stofnuðu hjónin ásamt Francesco Allegrini, syni vínbóndans kunna Franco, en Allegrini er meðal virtustu vínframleiðenda Ítalíu. OLIFA vörurnar, sem fást í verslunum Krónunnar, njóta mikilla vinsælda hérlendis. Í OLIFA vörulínunni má meðal annars finna fimm 100% ítalskar upprunavottaðar jómfrúarolíur, hreina tómatsósu, krydd úr handtíndum jurtum, ferskt pestó með DOP vottuðum hráefnum og ólífur.

Nú hyggjast Emil og Ása, ásamt Gleðipinnum, nýta sér tengsl OLIFA og Allegrini fjölskyldunnar á ítölskum matarmarkaði, til þess að bjóða hágæða hráefni á nýjum veitingastað; OLIFA - La Madre Pizza.

„Við Gleðipinnar erum afar spenntir fyrir því að fá að taka þátt í þessu ævintýri Ásu og Emils. Þau hafa mikla þekkingu á ítölskum hráefnum og matargerð eftir áralanga búsetu á Ítalíu og hafa mjög skýra sýn á það hvernig veitingastað þau vilja opna. Þetta er þeirra draumur og og við erum montin af því að fá að vera samferða", segir Jóhannes Ásbjörnsson, talsmaður Gleðipinna.

Minni OLIFA Pizzeria í nýrri Krónuverslun

Samstarf OLIFA og Krónunnar hefur verið gæfuríkt og samhliða því að opna OLIFA - La Madre Pizza á Suðurlandsbraut verður opnuð minni útgáfa af staðnum í nýrri Krónuverslun í Skeifunni, þar sem Myllan var til húsa. „Krónan hefur verið okkur afar dýrmætur samstarfsaðili í uppbyggingu OLIFA vörumerkisins og mun leika lykilhlutverk í nýja pizzustaðnum. Í samstarfi við Krónuna getum við flutt inn fersk ítalskt hágæðahráefni frá birgjunum okkar, sem er lykillinn að því sem við viljum ná fram og bera á borð okkar viðskiptavina,“ segir Ása.

Ása hefur verið dugleg við að sýna frá lífi þeirra Emils á Ítalíu og á Instagram reikningi hennar verður hægt að fylgjast með undirbúningi OLIFA - La Madre Pizza.