Uppgötvaðist fyrir algjöra tilviljun

Framkvæmdir standa yfir við Jarðböðin en þær draga sannarlega ekki …
Framkvæmdir standa yfir við Jarðböðin en þær draga sannarlega ekki úr upplifun gesta. mbl.is/Brynjólfur Löve

120 metra langur hellir uppgötvaðist fyrir tilviljun við Jarðböðin við Mývatn þegar ákveðið var að stækka þjónustuhús sem nú er í byggingu. Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdastjóri Jarðbaðanna hitti blaðamenn í menningarhúsinu Hofi á Akureyri og ræddi um lífið í Jarðböðunum, hinn dularfulla helli sem uppgötvaðist fyrir tilviljun og framtíðarhorfur í ferðamennskunni.

Mikil uppbygging er við Jarðböðin við Mývatn um þetta leyti en áætlað er að ný og stærri aðstaða verði opnuð næsta sumar, sumarið 2025. Framkvæmdastjórinn, Guðmundur Þór Birgisson, segir að stefnt hafi verið að því að allt yrði klárt í sumar þar sem Jarðböðin eru á sínu 20. starfsári, en sá draumur hafi því miður ekki náð að verða að veruleika.

Guðmundur er gestur Hringferðarinnar. Þáttinn má hlusta á í spilaranum hér að neðan.

Bæði er verið að stækka lónið og opna nýtt og stærra þjónustuhús. Lítið fer fyrir framkvæmdunum þegar ofan í lónið sjálft er komið þótt greinanlegt sé að utan að byggingarkrani er hinum megin.

„Við erum að fara úr rúmlega þúsund fermetra byggingu í tæplega þrjú þúsund fermetra. Svo það er nánast þreföldum. Við munum geta tekið við eitthvað aðeins fleiri gestum en aðallega erum við að styrkja og bæta aðstöðuna og uppfæra hana,“ segir Guðmundur.

Við framkvæmdirnar sem nú standa yfir uppgötvaðist hellir undir lóninu. Guðmundur útskýrir að hann hafi fundist fyrir algjöra tilviljun þegar ákveðið var að stækka þjónustuhúsið út um tvo metra og þar af leiðandi grunninn.

Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn.
Guðmundur Þór Birgisson framkvæmdastjóri Jarðbaðanna við Mývatn. mbl.is/Brynjólfur Löve

Hola opnaðist

„Þá opnaðist þarna hola í jörðina. Jarðvinnuverktakinn sá nú að þetta var ekki bara einhver smá hola. Hann náði að stinga skóflunni sinni þarna ofan í og náði ekki til botns,“ segir Guðmundur. Í ljós kom að 12 metrar eru niður á botn í hellinum.

„Síðan var farið áfram að skoða og farið ofan í hann og í ljós kom þessi magnaði hellir sem leiðir undir allt saman,“ segir Guðmundur. Hellirinn er um 120 metra langur og er op hans við norðurenda baðanna og liggur í norðnorðvestur. Því er hann ekki beint undir böðunum sjálfum.

„Mjög líklega eða vonandi förum við í einhverja vinnu í kringum hann. Að búa til eitthvert aðgengi þar niður,“ segir Guðmundur en slíkar framkvæmdir eru háðar leyfi frá Umhverfisstofnun. Hellirinn er þannig í friðlýsingarferli hjá stofnuninni og vonast Guðmundur til að fá einhverjar heimildir til að leyfa fólki að fara ofan í hann. Í allra versta lagi verður bara hægt að horfa ofan í hann. 

Viðtalið má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins og hlusta á það í heild sinni á Spotify.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka