Herða viðbúnað við bænahús

Lögreglan í Vínarborg. Mynd úr safni.
Lögreglan í Vínarborg. Mynd úr safni. AFP

Lögreglan í Austurríki hefur hert öryggisráðstafanir vegna upplýsinga leyniþjónustunnar um möguleg áform hóps jíhadista um hryðjuverkaárás í Vínarborg. Frá þessu greinir lögreglan á Twitter.

Upphaflega var varað við hótunum um árásir á kirkjur borgarinnar, en lögreglan hefur nú greint frá því að hótunin eigi einnig við um bænahús annarra trúarfélaga og hefur viðbúnaðarstig við öll bænahús borgarinnar verið aukið í kjölfarið.

Lögregla búin skotheldum vestum og árásarriflum 

Lögregla borgarinnar er nú í viðbragðstöðu við bænahús og mun senda út viðvaranir berist henni upplýsingar um aukna hættu á ákveðnum stöðum.

Talsmaður lögreglunnar segir í samtali við Radio Wien að lögreglan sé búin skotheldum hjálmum, vestum og árásarrifflum og sinni nú eftirlitsaðgerðum í borginni.

Einnig hefur lögreglan biðlað til almennings að birta ekki myndir af viðbúnaði lögreglu.

Fjórir létust árið 2020

Fjórir létust og 23 særðust í hryðjuverkaárás í borginni árið 2020, af völdum árásarmannsins Kujtim Fejzulai, sem áður hafði reynt að ganga til liðs við samtökin Ríki íslams. Hann var skotin til bana af lögreglunni á staðnum.

Í febrúar felldi dómstóll dóm yfir fjórum meintum vitorðsmönnum Fejzulai, en tveir þeirra voru dæmdir í lífstíðarfangelsi og hinir tveir í 19 og 20 ára fangelsi.

Í kjölfar árásarinnar 2020 voru samþykkt ströng lög gegn hryðjuverkum, en þau hafa verið harðlega gagnrýnd fyrir að heimila aukið eftirlit með óbreyttum borgurum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert