„Árangurinn ekki ásættanlegur“

Ýmir Örn Gíslason fagnar marki í kvöld.
Ýmir Örn Gíslason fagnar marki í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ýmir Örn Gíslason sagði það ánægjulegt að ljúka HM 2023 í handknattleik með sigri en það að komast ekki í átta liða úrslit mótsins væru sár vonbrigði.

Ísland lauk keppni með 41:37-sigri á Brasilíu í lokaleik liðanna í milliriðli 2 í kvöld.

„Þetta var bara karakter og við vildum enda þetta á góðum nótum fyrir okkar stuðningsmenn.

Við vissum það fyrir leikinn að við værum ekki að fara halda áfram í þessari keppni og því var það minnsta sem við gátum gert að vinna þennan leik fyrir stuðningsmenn okkar, sem eru hérna í þúsundatali,“ sagði Ýmir Örn í samtali við mbl.is eftir leik.

Fínt að byrja leikinn loksins

Brasilía leiddi 22:18 í hálfleik. Hvað fór úrskeiðis í fyrri hálfleik?

„Við bara stöndum mikið einir og sérstaklega varnarlega náum við ekkert að hjálpa markvörðum okkar. Þeir fá allt of mikið af auðveldum mörkum, við erum í smá tveggja mínútna veseni í þokkabót og við erum bara of seinir.

Ég held að lappirnar hafi ekki alveg verið tilbúnar í þetta í fyrri hálfleik en þetta kom í seinni,“ útskýrði hann.

Ýmir Örn.
Ýmir Örn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Spurður hvað hafi verið farið yfir í hálfleik sagði Ýmir Örn:

„Í fyrsta lagi að byrja leikinn, að það væri nú kannski bara fínt! Að byrja varnarlega, við vorum flottir sóknarlega en skorum samt bara tvö mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. Ég held að það hafi lagast í seinni hálfleik, án þess að ég viti það akkúrat núna.

En það var að koma með aðeins meiri anda í þetta, við bökkuðum aðeins í vörninni og treystum betur á Viktor [Gísla Hallgrímsson] fyrir aftan okkur. Við vorum að vinna með blokk varnarlega, mér fannst það ganga frábærlega.“

Erfitt að sætta sig við þetta

Ísland hefur nú lokið keppni á HM.

„Númer eitt, tvö og þrjú eru þetta vonbrigði. Þetta mót er vonbrigði, það er bara þannig því miður. Árangurinn er ekki ásættanlegur fyrir okkar lið.

Við áttum að gera betur og það er því miður erfitt að sætta sig við þetta. Við verðum einfaldlega að mæta að ári liðnu til Þýskalands og gera þetta miklu betur,“ sagði Ýmir Örn að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert