Erlent

Bannar brúð­kaup og erfi­drykkjur vegna út­breiðslu Co­vid

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hassan Rouhani, forseti Íran, tilkynnir samkomubann til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar.
Hassan Rouhani, forseti Íran, tilkynnir samkomubann til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. EFE/PRESIDENT OFFICE

Hassan Rouhani, forseti Íran, hefur boðað bann á stórum viðburðum, svo sem brúðkaupum og erfidrykkjum til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar en smitum í Íran hefur farið fjölgandi undanfarið. Hann hefur þó sagt að fyrirtæki muni áfram vera opin til að reyna að halda áhrifum á efnahag landsins í lágmarki.

Stuttu eftir tilkynningu Rouhani, sem var sjónvarpað, tilkynnti talsmaður lögreglunnar í Tehran, höfuðborg landsins, að öllum viðburðarsölum í borginni yrði lokað þá og þegar. Írönsk stjórnvöld hafa frá miðjum apríl létt hægt og rólega á takmörkunum en nýlega varð aukningin í kórónuveirusmitum mjög snögg.

188 létust síðasta sólarhringinn í Íran og er tala látinna því orðin 12.635 en fjöldi þeirra sem greinst hafa með veiruna þar í landi er orðinn 255.117 og fjölgaði smitunum um 2.397 síðasta sólarhringinn. „Við þurfum að banna allar trúarathafnir og fjöldasamkomur í landinu öllu, hvort sem það eru erfidrykkjur, brúðkaup eða veislur,“ sagði Rouhani.

Þá sagði hann að inntökuprófum í háskólana yrði líklega frestað. Rouhani og fleiri embættismenn hafa kennt stórum samkomum um skyndilega fjölgun smita.


Tengdar fréttir

Töluverðar skemmdir urðu í kjarnorkustöð Írana

Írönsk yfirvöld viðurkenna að verulegar skemmdir hafi orðið á kjarnorkustöð þeirra í Natanz þegar eldur braust út þar á fimmtudag. Eldurinn er meðal annars sagður hafa valdið skemmdum á nýrri skilvindu sem var í smíðum þar.

Rekja slys í íranskri kjarnorkustöð til mögulegs tölvuinnbrots

Írönsk yfirvöld ýja að því að slys sem varð í neðanjarðarstöð þar sem úran er auðgað í gær megi rekja til tölvuinnbrots. Almannavarnir landsins segir að Íran muni ná sér niður á ríkjum sem reyna að brjótast inn í tölvukerfi auðgunarstöðva.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×