Af og frá að þétting verði „keyrð í gegn“

Tillögum um þéttingu, sem kynntar voru fyrir áramót, var mætt …
Tillögum um þéttingu, sem kynntar voru fyrir áramót, var mætt með harðri andstöðu íbúa og svo fór að fallið var frá þeim. mbl.is/sisi

Oddvitar í meirihluta borgarstjórnar segja af og frá að tillögur um þéttingu byggðar við Bústaðaveg verði keyrðar í gegnum borgarstjórn á nýju kjörtímabili þvert á vilja íbúa hverfisins. 

Tillögum um þéttingu, sem kynntar voru fyrir áramót, var mætt með harðri andstöðu íbúa og svo fór að fallið var frá þeim. 

Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögu á borgarstjórnarfundi á þriðjudag um að formlega skyldi fallið frá þéttingaráformum við Bústaðaveg, Háaleitisbraut og Miklubraut. Þeirri tillögu var vísað frá og sagði Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna í borginni, að það væri kjarkleysi af hálfu meirihlutans. 

Oddvitar í meirihluta eru á öðru máli. 

Segir Sjálfstæðisflokkinn ganga út á að skapa sundrung og óvissu

Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í borgarstjórn, tók einna harðast til orða þegar mbl.is spurði hana út í áform við Bústaðaveg og umrædda tillögu minnihlutans sem vísað var frá. 

„Það er alveg ljóst að þessar vinnutillögur sem lagðar voru fram hefur verið ýtt til hliðar. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á þessari tillögu Sjálfstæðisflokksins á þriðjudaginn var, sem var held ég bara tilraun til þess að halda lífi í þessu máli sem þeim er annt um að blása upp í pólitískum tilgangi. Ég gat ekki séð betur en að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins væru að reyna að ala á einhverju óöryggi og óvissu um hver staða þessa máls er, til þess að reyna að kynda undir skautun sem er ekki til staðar í þessu máli. Stundum virðast einu pólitísku markmið Sjálfstæðisflokksins vera að ala á sundrungu og reiði frekar en að því sé hreinlega fagnað að hlustað hafi verið á raddir íbúa. Enda virðist þessi flokkur ekki snúast um margt annað en tilfinningalegt upphlaup yfir ímynduðum ofsóknum,“ segir Dóra Björt.

Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata.
Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Pírata. Ljósmynd/Aðsend

Um framtíð Bústaðavegar og hverfisins í kring segir Dóra Björt að ljóst sé að ráðast verði í einhverjar breytingar. Kallað hafi verið eftir því að bæta umferðaröryggi barna og gangandi og hjólandi vegfarenda. Hún segir flokk sinn mjög opinn fyrir því að bregðast við slíku ákalli. 

Sömuleiðis segir hún af og frá að einhverjar fastmótaðar áætlanir um þéttingu við Bústaðaveg verði keyrðar í gegn á nýju kjörtímabili, eins og Eyþór Arnalds sagði við mbl.is að grunsemdir væru um. 

 „Íbúar hafa sjálfir kallað eftir því að öryggi gangandi vegfarenda og sérstaklega barna sé betur tryggt á Bústaðavegi. Þess vegna er full ástæða til þess að leita annarra lausna, eins og við höfum talað um, sem byggja á breiðari sátt til þess að bregðast við því að draga úr umferðarhraða, bæta hljóðvist og tryggja öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda, eins og hefur verið kallað eftir og talað mikið um. Það er auðvitað hægt að gera það með mismunandi leiðum og það verður að skoða hvernig má snúa sér í því. En það er alveg ljóst að þessar tillögur, sem voru kynntar þarna sem vinnutillögur, þeim hefur verið ýtt til hliðar og hvað sem svo verður þarf að vinna í breiðari sátt. Þetta verður ekkert keyrt í gegn, eins og Sjálfstæðisflokkurinn ýjaði að, beint eftir kosningar og þetta verði aftur sett á borðið og því þrýst í gegn.“

Rétt að muna að um vinnutillögur á frumstigi væri um að ræða

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn, segir að öllum sé hollt að muna að tillögurnar um þéttingu við Bústaðaveg hafi verið vinnutillögur á frumstigi hugmyndavinnu. Það sé því eðlilegt að viðbrögð borgarinnar við óánægju íbúa séu að falla frá tillögunum og hugsa málið upp á nýtt. 

„Við erum að tala um algjör drög að hugmyndum á hugmyndastigi. Það er það sem þessar þéttingartillögur voru, þetta voru aldrei neinar formlegar áætlanir, þær voru ekki kynntar þannig. Núna er búið að kynna þetta í Bústaðahverfinu og það voru mikil viðbrögð og það eru mjög eðlileg viðbrögð við því að taka afstöðu til þess, sem er það sem við gerðum á fyrsta fundi skipulags- og samgönguráðs eftir áramót,“ segir hún.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í borgarstjórn. mbl.is/Elsa Katrín Ólafsdóttir

Þórdís Lóa segir einnig skrýtið af sjálfstæðismönnum að leggja fram tillögu um að falla frá öllum þéttingaráformum á Bústaðavegi, Háaleitisbraut og Miklubraut. Hún segir tillöguna sýndarmennsku og tekur þannig undir með flokksbróður sínum, Pawel Bartoszek, sem sagði við mbl.is á miðvikudag að hann skildi lítið í tillögunni.

„Það væri eins og að æra óstöðugan að fara með fyrir borgarstjórn allar tillögur sem ræddar eru innan borgarinnar. Það vita það allir og sjá að þessi tillaga Sjálfstæðisflokksins var bara sýndarmennska. Það var búið að leggja þetta til og það var síðan dregið til baka og það er bara þannig. Þetta verður ekkert tekið upp á nýju kjörtímabili.“

Ekki kjarkleysi að sýna auðmýkt

Líf Magneudóttir segir einnig að ekki verði farið í að koma tillögum um þéttingu við Bústaðaveg í gegn á nýju kjörtímabili, í þeirri mynd sem kveðið var á um í niðurfelldum vinnutillögum. 

Hún segist þó vera andsnúin því að útiloka alveg einhverju uppbyggingu á svæðinu en segir að slíkt verði að vera gert í auknu samráði við íbúa svæðisins. 

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn.
Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil endilega halda áfram að leita lausna á þessu svæði, bæði til að fegra það en líka til þess að auka öryggi og búa til góðan hverfisbrag. Mér finnst bara fínt að hafa saltað þessi áform en mér finnst aldrei gott að útiloka algjörlega með öllu svona tillögur. Ég held að það hafi verið mjög skynsamlegt að salta hlutina, leyfa umræðunni að þroskast, bera meira undir íbúana, vera í þessu virka samtali, af því íbúarnir vita og þekkja sitt umhverfi manna best. Ef við ætlum svo að koma aftur með aðrar hugmyndir þá kannski verða til nýjar hugmyndir. Við eigum að gera það, það er langskynsamlegast. Verkefnin heppnast alltaf best ef íbúar eru með í liði. Við erum ekki hér til þess að drita niður húsum alls staðar, það verður að vera fegurð í því og þetta þarf að vera úthugsað. Ég held alveg að við getum í einhverri mynd unnið áfram með þetta svæði, þó það verði kannski ekki þessar hugmyndir sem nú hefur verið fallið frá. Það eru fleiri staðir í borginni sem orkar minna tvímælis að ráðast í uppbyggingu á og þá er bara fínt að salta þetta í bili og taka kannski upp síðar,“ segir Líf.

Spurð út í hvað henni finnist um orð Eyþórs Arnalds að það lýsi kjarkleysi meirihlutans að tillögu minnihlutans hafi verið vísað frá á þriðjudag, segir Líf að svo sé ekki. 

„Það er ekki kjarkleysi að sýna auðmýkt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert