Þjóðverjar skoða það að banna Telegram

Myndmerki spjallforritsins er pappírsskutla.
Myndmerki spjallforritsins er pappírsskutla. AFP

Þýska ríkisstjórnin ræðir nú tillögu þess efnis að banna samskiptaforritið Telegram. Er það gert vegna þess hve mikið forritið er nýtt til að dreifa samsæriskenningum um bóluefni og hótunum.

Forritið Telegram hefur notið aukinna vinsælda síðastliðin ár vegna sterks dulkóðunarkerfis þess. Þannig geta notendur treyst því að sá eini sem geti lesið skilaboðin sé viðtakandi þeirra og að skilaboðin sé erfitt að rekja.

Þekktur vettvangur fíkniefnasölu

Vegna þess hefur forritið notið mikilla vinsælda á meðal þeirra sem er annt um öryggi gagna sinna, en líka meðal fíkniefnasala hérlendis

Nú hefur þýska ríkisstjórnin fengið nóg af forritinu og skoðar þann kost að banna það úr þýskum útgáfum smáforritaverslana.

Skilaboðahópar á forritinu hafa verið meðal stærstu vettvangur andófsmanna bólusetninga en þeir hafa notað forritið til að auglýsa fjölmenn mótmæli við m.a. bólusetningaskyldu í Þýskalandi.

Telegram-teymi skoðar hótanir

Þýska alríkislögreglan BKA starfsrækir nú þegar sérstakt Telegram-teymi sem er ætlað að rannsaka og sækja til saka þá sem sendi þar líflátshótanir og hatursorðræðu.

Forseti þýsku alríkislögreglunnar BKA, Holger Münch, segir að í heimsfaraldrinum hafi fólk í meira mæli snúist til öfgafyllri skoðana og samhliða því hafi fleira fólk farið að senda líflátshótanir.

Í einum 25.000 manna spjallhópi kallaði einn notandi eftir heimilisföngum þeirra þingmanna, stjórnmálamanna og annarra sem hefðu talað fyrir samkomutakmörkunum vegna heimsfaraldursins.

Þýsk stjórnvöld hafa sett forsvarsmönnum Telegram-samskiptaforritsins afarkosti; annað hvort aðstoði þeir yfirvöld við að rekja skilaboð um hótanir ellegar verði forritið bannað í Þýskalandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert