Nýjar sprungur gætu myndast og ógnað fólki

Veðurstofa Íslands hefur sett upp tvo síritandi gasmæla.
Veðurstofa Íslands hefur sett upp tvo síritandi gasmæla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er útilokað að fleiri gossprungur geti myndast á svæðinu við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Þetta er mat vísindaráðs almannavarna sem fundaði í dag. 

Í fréttatilkynningu almannavarna segir að nýjar sprungur geti opnast með litlum fyrirvara þar sem allar mælingar sýni að kvika liggi grunnt undir yfirborði alls gossvæðisins. Einnig segir að hraunflæði virðist hafa aukist í takt við opnun tveggja nýrra sprungna á svæðinu en frekari mælingar þurfi að staðfesta það. 

Þá er varað við því að gasmengun á svæðinu geti einnig verið meiri vegna nýju sprungnanna. Mikil mengun mælist nú við gosstöðvarnar en sú mengun dvínar hratt eftir því sem fjær er farið. 

Veðurstofa Íslands hefur sett upp tvo síritandi gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum. Veðurstofan mun svo vinna heildarhættumat fyrir svæðið þar sem tekið er á hættu vegna hraunrennslis, gasmengunar og möguleika á opnun nýrra gossprungna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert