Bill Whitaker, fréttamaður 60 Minutes, skoðaði eldstöðvarnar í Geldingadölum í gær, á sjálfan verkalýðsdaginn. Þetta má sjá í Facebook-færslu Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands , en nýdoktorinn Ed Marshall, hjá Jarðvísindastofnun, fór að gosstöðvunum ásamt fréttamanninum.

Ekki er ljóst hvort ferð fréttamannsins að gosstöðvunum hafi verið á vegum 60 mínútna eða hvort hann sé þar á eigin vegum. Það má þó leiða líkur að því að Bill hafi farið að gosstöðvunum starfs síns vegna, en talsverður fjöldi erlendra fjölmiðla hafa fjallað um eldgosið í Geldingadölum.

60 Minutes eru vinsælir fréttaskýringarþættir á vegum sjónvarpsstöðvarinnar CBS news. Hafa þættirnir verið á dagskrá í ríflega hálfa öld, eða allt frá árinu 1968. Þættirnir eru alls orðnir hvorki fleiri né færri en 2.325 talsins á þessum 53 árum.

Bill Whitaker hefur starfað sem fréttaskýrandi hjá 60 mínútum frá árinu 2014, en hefur starfað hjá CBS frá árinu 1984.