Opnun sundlauga ekki til skoðunar sem stendur

Rögnvaldur Ólafsson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum í …
Rögnvaldur Ólafsson, Þórólfur Guðnason og Alma Möller á fundinum í morgun. Ljósmynd/Almannavarnir

Samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra verður þeim sem hafa smitast af Covid-19 ekki lengur gert að bera grímur við aðstæður þar sem grímuskylda er. Er þetta meðal annars gert vegna meðalhófsregla, en engu að síður hafa stærstu verslanir landsins gefið út að þær ætli að halda uppi grímuskyldu fyrir alla.

Verslanir áfram með grímuskyldu þrátt fyrir undanþágu

Á upplýsingafundi almannavarna í dag var Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir spurður út í þessa undanþágu og hvort hún flækti ekki þau skilaboð sem færu til almennings. Þórólfur sagði að rætt hefði verið um þessi mál og það hafi verið skoðun þeirra að ósanngjarnt væri að skylda fólk sem hefði smitast og þyrfti þar af leiðandi ekki að vera með grímur til þess að bera grímur áfram. Bætti Alma Möller landlæknir því við að þarna skipti meðalhófsreglan máli, en hún hafi hins vegar heyrt af fólki sem hefði smitast og vildi frekar bera grímu en að reyna að standa á máli sínu, meðal annars með að sýna staðfestingu á smiti.

Benti Alma á að hægt væri að nálgast slíka staðfestingu á Heilsuveru og væri þá hægt að framvísa því ef þyrfti.

Í dag hafa verslanir Haga, meðal annars Hagkaup og Bónus, upplýst um að þær muni áfram hafa grímuskyldu, óháð því hvort fólk hafi áður greinst með veiruna. Þá greinir Vísir frá því að það sama eigi við um verslanir Festis, meðal annars Krónuna og Elko. Vísa þær meðal annars til þess að aukið álag fylgi athugunarskyldu framlínustarfsfólks á því hvort viðskiptavinir hafi áður smitast eða ekki.

Var Rögnvaldur spurður út í hvort verslanir gætu viðhaldið grímuskyldu þrátt fyrir reglugerð. Sagði Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavörnum, að trúlega gætu verslanirnar gert þetta, en það væri í skoðun.

Vottorð fyrir líkamsræktastöðvar og sundlaugar ekki valmöguleiki

Þórólfur var jafnframt spurður út í grímuskyldu þegar bóluefni væri komið, en Anhtony Faucci, helsti sóttvarnasérfræðingur Bandaríkjanna, hafði gefið í skyn að áfram gæti verið þörf fyrir grímuskyldu þrátt fyrir bóluefnið. Þórólfur svaraði því til að ef got bóluefni kæmi fram sem kæmi í veg fyrir smit væri erfitt að krefja fólk um að bera grímur. Það færi þó einnig eftir því hvernig þátttaka almennings væri í bólusetningu og hvort hægt væri að skapa hjarðónæmi með miklum hraða.

Í framhaldi af þessu var Þórólfur spurður hvort í skoðun væri að heimila að líkamsræktarstöðvar og sundlaugar myndu opna að nýju fyrir þá sem gætu sýnt fram á vottorð um að hafa áður smitast. Sagði hann það vera flókið í framkvæmd að opna fyrir nokkra en aðra ekki og sló þá hugmynd út af borðinu. Sagði hann jafnframt að ekki væri í skoðun núna að opna sundlaugar strax aftur fyrir almenning. Hins vegar sé í skoðun með íþrótta- og sundkennslu fyrir grunnskólabörn.

„Svolítið hissa á“ einangrun Boris 

Fjölmiðlar í Bretlandi greindu um helgin frá því að Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefði farið í 1-2 vikna einangrun vegna þess að hann var útsettur fyrir smiti þegar hann umgekkst smitaðan einstakling. Spurð út í hvort þetta væri nauðsynleg ráðstöfun, eftir að Boris sjálfur hafi smitast fyrr á árinu, sagði Þórólfur að hann þyrfti að sjá frekari skýringar fyrir þessari ákvörðun. „Ég er svolítið hissa á þessu,“ viðurkenndi hann og bætti við að þó að þeir sem hefðu smitast áður gæti borið veiruna t.d. á höndum, þá væri mjög ólíklegt að þeir fái veiruna ofan í sig og að hún fjölgi sér í lungum. Bætti Alma því við að kannski væri þetta gert vegna ofurvarkárni þar sem um væri að ræða forsætisráðherra.

Í dag er dagur íslenskrar tungu. Af því tilefni voru Alma, Þórólfur og Rögnvaldur spurð út í uppáhalds orð þeirra sem tengjast faraldrinum. Alma sagði að hjá sér væri það smitrakning. Þórólfur sagði að orðið fordæmalaus kæmi fyrst upp í hugann og Rögnvaldur sagði að kóvidþreyta væri hans orð, enda væri hann sjálfur farinn að finna fyrir henni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert