Að láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna

Mikil aðsókn hefur verið í Sky Lagoon.
Mikil aðsókn hefur verið í Sky Lagoon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Reglur um klæðaburð á baðstöðum landsins hafa verið mikið í umræðunni síðastliðna daga eftir að Diljá Sigurðardóttur var vísað upp úr Sky Lagoon á Kársnesi fyrir það að vera berbrjósta í lóninu.

Diljá greindi frá atvikinu í færslu á facebooksíðu sinni á laugardag þar sem hún lýsir óánægju sinni með viðbrögð starfsmanna Sky Lagoon sem tjáðu henni að hún þyrfti að hylja brjóst sín ellegar yrði henni vísað upp úr lóninu. Þá segir Diljá að með athæfinu hafi Sky Lagoon mismunað henni á grundvelli kyns hennar.

Eftir samtal við starfsmenn Sky Lagoon valdi Diljá að yfirgefa lónið, niðurlægð að eigin sögn. Facebookfærsla Diljár vakti mikla athygli og í kjölfarið fóru af stað heitar umræður um kynjamisrétti á samfélagsmiðlum á borð við Twitter.

Fékk reglunum breytt

Dagný Hrönn Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, neitaði í samtali við mbl.is að Diljá hefði verið vísað upp úr lóninu og taldi fyrirtækið ekki hafa mismunað eftir kynferði með athæfinu. Starfsmenn hefðu aðeins verið að fylgja skilmálum fyrirtækisins. Diljá hafði þó að eigin sögn kynnt sér skilmála Sky Lagoon áður en hún heimsótti lónið og að þar hefði einungis verið gerð sú krafa að gestir klæddust hefðbundnum sundfötum, sem hægt er að túlka eftir eigin hentugleika.

Framkvæmdastjórn Sky Lagoon hefur þó fundið sig knúna til að breyta reglunum í kjölfar umræðunnar sem fór af stað eftir atvikið en reglum um klæðaburð í lóninu var breytt á mánudag. Í yfirlýsingu frá Sky Lagoon segir að hér eftir verði ekki gerður greinarmunur á kynjum um hvað teljist til fullnægjandi sundfata í skilmálum Sky Lagoon.

Hefur áður hlotið gagnrýni

Innt eftir viðbrögðum segist Diljá ánægð með breytingarnar á skilmálum Sky Lagoon. Þá vonar hún að atvikið verði öðrum baðstöðum til eftirbreytni.

Diljá hefur áður hlotið gagnrýni fyrir það að vera berbrjósta í sundi en Nútíminn greindi frá því 15. janúar að hún hefði verið gagnrýnd fyrir að vera berbrjósta í Jaðarsbakkalaug á Akranesi. Í tengslum við það atvik sagði Þórgnýr Thoroddsen, formaður íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkurborgar, í samtali við RÚV að engum væri bannað að vera berbrjósta í sundlaugum borgarinnar. Ekki liggja fyrir upplýsingar um það hvort einkareknum baðstöðum sé heimilt að banna konum að vera berbrjósta.

Við eftirgrennslan Morgunblaðsins kemur í ljós að reglur um klæðaburð eru misskýrar milli baðstaða.

Ekki eru gerðar sérstakar kröfur um klæðaburð í Vök Baths á Héraði. Þar mega allir gestir vera berbrjósta kjósi þeir það, að sögn Aðalheiðar Óskar Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Vakar Baths.

Í Bláa lóninu er óskað eftir því að gestir klæðist „hefðbundnum sundfatnaði“, að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Bláa lónsins. Hvernig sem það má túlka.

Geirvörturnar frelsaðar

Umræðan um brjóst kvenna og berun þeirra er ekki ný af nálinni hér á landi. Árið 2015 tók fjöldi íslenskra kvenna þátt í svokallaðri brjóstabyltingu, sem var hluti af alþjóðlega gjörningnum „Free the Nipple“. Byltingin gekk út á að konur beri brjóst sín sem uppreisn gegn viðteknum félagslegum gildum sem þær telja vera óréttlæti gagnvart sér. Upphaf brjóstabyltingarinnar má rekja til þess þegar ung íslensk kona birti myndir af berum brjóstum sínum inni á samfélagsmiðlinum Twitter undir myllumerkinu #Freethenipple 26. mars, árið 2015. Sagði hún tilganginn með myndbirtingunni vera að vekja athygli á hefndarklámi og því sem hún teldi ójafnrétti.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert