Biðjast afsökunar á kynþáttafordómum

Mykhailo Mudryk á fleygiferð í fyrsta leik sínum fyrir Chelsea …
Mykhailo Mudryk á fleygiferð í fyrsta leik sínum fyrir Chelsea gegn Liverpool. AFP/Paul Ellis

Fulltrúi á vegum Úkraínumannsins Mykhailo Mudryk hefur sent frá sér afsökunarbeiðni fyrir hönd knattspyrnumannsins eftir að hann gerðist uppvís að kynþáttafordómum í myndskeiði á samfélagsmiðlinum TikTok.

Mudryk var keyptur til Chelsea frá Shakhtar Donetsk fyrir 62 milljónir punda fyrr í janúar, en upphæðin gæti hækkað upp í 89 milljónir með ýmsum árangurstengdum greiðslum.

Í myndskeiðinu, sem birtist í júlí á síðasta ári og var síðar fjarlægt, sást hvar Mudryk söng með rapplagi þar sem hann lét N-orðið út úr sér.

„Mykhailo þykir mjög leitt að hafa móðgað fólk. Þó ætlun hans hafi einungis verið að syngja með lagatexta sér Mykhailo eftir þeirri ákvörðun sinni og gengst fyllilega við því að það hafi ekki verið viðeigandi,“ sagði í yfirlýsingu frá fulltrúa Mudryks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert