Þorkell skipaður í embætti forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands

Þorkell Lindberg.
Þorkell Lindberg. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað Þorkel Lindberg Þórarinsson í embætti forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands til næstu fimm ára.

Þorkell er með BS gráðu í líffræði og lauk MS prófi í dýravistfræði frá Háskóla Íslands árið 2002. Hann hefur einnig lagt stund á diplómanám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands, að því er segir á vef ráðuneytisins. 

Þorkell hefur starfað sem forstöðumaður Náttúrustofu Norðausturlands frá árinu 2003. Hann er stjórnarformaður Hvalasafnsins á Húsavík og Rannsóknastöðvarinnar Rifs, ásamt því að gegna formennsku í stjórn Náttúruverndarnefndar Þingeyinga. Þorkell hefur leitt og stýrt fjölda rannsóknaverkefna, sem og verið meðhöfundur fjölda ritrýndra vísindagreina.

Eiginkona Þorkels er Sesselja Guðrún Sigurðardóttir og eiga þau tvær dætur.

Embætti forstöðumanns Náttúrufræðistofnunar var auglýst í september og sóttu 12 um embættið, segir ennfremur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert