Sló konu ítrekað í andlitið

mbl.is/Hanna

Karlmaður var í dag dæmdur sekur fyrir Landsrétti um að hafa slegið konu í andlitið ítrekað með þeim afleiðingum að hún féll í jörðina tvisvar og slasaðist við það. Var maðurinn einnig dæmdur fyrir að hafa hótað konunni lífláti.

Árásin átti sér stað 7. desember árið 2019 kl. 2:29 um nótt fyrir utan veitingastað sem er ekki getið í dómnum. Hafi konan þá farið út af staðnum þegar var verið að loka honum og séð manninn sem var að sögn konunnar mjög æstur. Þegar að konan spurði manninn af hverju hann væri svona æstur hafi maðurinn kýlt hana ítrekað í andlitið þangað til hún datt í jörðina.

Stóð konan þá upp og tók ljósmynd af manninum og gekk í burtu en við það hljóp maðurinn á eftir henni, felldi hana og lét höggin dynja á höfði hennar að því er segir í dómnum. Var þá maðurinn dreginn frá henni og gafst konunni þá tækifæri til að hlaupa inn í bíl og reyndi maðurinn þá að opna bílinn án árangurs. Öskraði hann þá að henni í gegnum lokaðan gluggann að ef hún kærði hann myndi hann koma heim til hennar og drepa hana.

Féllst dómurinn ekki á málsvörn mannsins að konan hafi átt upptök að því að hann hafi ráðist á hana og var því um tilefnislausa atlögu að ræða.

Maðurinn var dæmdur til fangelsisvistar í þrjá mánuði en fullnustu refsingar frestað skilorðsbundið í tvö ár. Var honum jafnframt gert að greiða konunni 400.000 krónur í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert