Íslenski boltinn

Segir FH vilja Óla Kalla en Valur vill ekki selja

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ólafur Karl í leik með Val á síðustu leiktíð.
Ólafur Karl í leik með Val á síðustu leiktíð. Vísir/Bára

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíð Ólafs Karls Finsen, leikmann Vals í Pepsi Max deildinni í fótbolta, í sumar. Ólafur Karl hefur lítið fengið að spila hjá Val síðan Heimir Guðjónsson tók við liðinu. Raunar hefur hann aðeins leikið einn leik með liðinu í Pepsi Max deildinni í sumar.

Þá sagði Heimir á dögunum að Ólafur Karl mætti fara leita sér að nýju liði en þessi 28 ára gamli sóknarþenkjandi leikmaður verður samningslaus þann 16. október.

Logi Ólafsson, aðalþjálfari FH, sagði mætti í viðtal í hlaðvarpið Fantasy Gandalf í dag.

„Það er ekkert launungamál að við höfum rætt við Ólaf Karl og hann vill koma til okkar en Valur leyfir honum ekki að fara,“ sagði Logi. Þá segir hann að FH sé á svokölluðum bannlista en Valsmenn vilji ekki selja Ólaf Karl til liða sem þeir eru í beinni samkeppni við.

„Það hafa verið viðræður milli Vals og FH í þessu máli en það hafa engar lausnir komið enn. Ég vona að þær komi sem fyrst,“ sagði Logi.

Þá herma heimildir Fótbolta.net að FH hafi boðið 350 þúsund krónur í Ólaf Karl. Þó upphæðin sé ef til vill ekki há þá á Ólafur lítið eftir af núverandi samningi sínum við Val og eru aðeins tveir mánuðir í að hann fari frítt frá félaginu.

Valur ku hafa hafnað því tilboði en þeir vildu fá miðjumanninn Þórir Jóhann Helgason í staðinn. FH tók það ekki í mál.

Ólafur Karl hefur verið í herbúðum Vals frá 2018 og leikið 38 deild- og bikarleiki á þeim tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×