Ólafsvíkingar slógu Þrótt úr keppni

Harley Willard skoraði tvö mörk í dag.
Harley Willard skoraði tvö mörk í dag. Ljósmynd/Alfons Finnsson

Tveimur leikjum er lokið í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu í dag. Víkingur frá Ólafsvík gerði góða ferð í Laugardalinn og vann Þrótt Reykjavík í slag 1. deildarliðanna, auk þess sem Vestri vann nauman sigur gegn KFR.

Enski vængmaðurinn Harley Willard reyndist Þrótti erfiður ljár í þúfu og kom Víkingi í 2:0 með því að skora eftir hálftíma leik og aftur á 42. mínútu, úr vítaspyrnu.

Staðan var 2:0 í hálfleik og á 66. mínútu komust Ólsarar í 3:0 þegar Kareem Isiaka skoraði.

Enski sóknarmaðurinn Samuel George Ford minnkaði muninn fyrir Þrótt á 78. mínútu áður en Hreinn Ingi Örnólfsson fékk beint rautt spjald í þeirra herbúðum á 84. mínútu.

Þar við sat og Víkingur Ólafsvík komið áfram í 32-liða úrslit Mjólkurbikarsins.

Þá vann 1. deildarlið Vestra nauman 1:0 sigur gegn 4. deildarliði KFR.

Sigurmarkið skoraði Pétur Bjarnason á 77. mínútu og Vestfirðingarnir þar með einnig komnir í 32-liða úrslit bikarsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert