Vilhjálmur hættir með Breiðablik

Vilhjálmur Kári Haraldsson lætur af störfum eftir tímabilið.
Vilhjálmur Kári Haraldsson lætur af störfum eftir tímabilið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vilhjálmur Kári Haraldsson mun ekki þjálfa kvennalið Breiðabliks áfram að loknu yfirstandandi tímabili. Hann klárar þau verkefni sem fram undan eru og lætur svo af störfum.

„Vilhjálmur tilkynnti stjórn að hann gæfi ekki kost á sér áfram eftir að samningur hans við Breiðablik rennur út. Vilhjálmur er í öðru starfi sem hann vill geta einbeitt sér að. Vilhjálmur Kári tók við Blikum í vetur eftir að Þorsteinn Halldórsson var ráðinn landsliðsþjálfari.

Vilhjálmur var þá nýlega búinn að tilkynna að hann væri hættur í þjálfun en sló til þegar honum bauðst starfið. Liðið tók miklum breytingum milli ára en Vilhjálmur og þjálfarateymið allt hefur unnið mjög gott starf,“ segir í tilkynningu frá knattspyrnudeild Breiðabliks.

Breiðablik náði ekki að verja Íslandsmeistaratitil sinn frá því í fyrra og hafna í öðru sæti þetta tímabilið. Einn leikur er eftir í deildinni og þá eiga Blikar eftir að spila úrslitaleik bikarkeppninnar gegn Þrótti úr Reykjavík.

Auk þess hefur það farið framhjá fáum að liðið tryggði sér sæti í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu, fyrst íslenskra liða, og mun því spila sex leiki í vetur í henni.

„Stjórn knattspyrnudeildar vill þakka Vilhjálmi Kára fyrir gott samstarf á tímabilinu. Leit að nýjum þjálfara er þegar hafin,“ sagði einnig í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert