Penninn á lofti í Safamýrinni

Aron Þórður Albertsson í leik með Fram í sumar.
Aron Þórður Albertsson í leik með Fram í sumar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalið Fram í knattspyrnu heldur áfram að framlengja samninga reyndra leikmanna sinna. Bæði Aron Þórður Albertsson og Gunnar Gunnarsson hafa framlengt samninga sína um tvö ár.

Aron Þórður er 25 ára uppalinn Framari sem gekk til liðs við HK árið 2015 og samdi ári síðar við Þrótt úr Reykjavík, þar sem hann lék allt til ársins 2020 þegar hann samdi á ný við uppeldisfélagið.

Fram vann 1. deildina með auðveldum hætti í sumar og leikur því í efstu deild að ári. Aron Þórður, sem leikur sem miðjumaður og bakvörður, semur út tímabilið 2023.

Gunnar Gunnarsson er 28 ára gamall miðvörður sem hóf meistaraflokksferil sinn með Hamri í Hveragerði og gekk til liðs við Fram frá Þrótti úr Reykjavík sumarið 2019.

Hann semur einnig út tímabilið 2023.

Á dögunum gerði Ólafur Íshólm Ólafsson, markvörður liðsins, slíkt hið sama.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert