Bara lélegt grín segir formaður

Pútín glottir við tönn sem skotskífa Skotfélags Húsavíkur sem auglýsir …
Pútín glottir við tönn sem skotskífa Skotfélags Húsavíkur sem auglýsir 400 metra riffilmót sitt. Formaður félagsins segir um lélegt grín hafa verið að ræða. Skjáskot/Facebook-síða Skotfélags Húsavíkur

„Þessi mynd sem fylgdi þessari auglýsingu um 400 metra riffilmót hjá okkur er bara lélegt grín sem hefur verið fjarlægt af síðunni okkar og þykir okkur þetta miður,“ segir Hallur Þór Hallgrímsson, formaður Skotfélags Húsavíkur, í samtali við mbl.is um Pútín-skotskífuna sem skreytti auglýsingu félagsins um mótið og rússneska sendiráðið í Reykjavík kvartar undan, svo sem mbl.is greindi frá nú fyrir skemmstu.

„Þarna var auðvitað bara um græskulaust grín að ræða og í þessu fólst auðvitað ekki pólitísk yfirlýsing af neinum toga,“ heldur Hallur Þór áfram, „það var bara einhver sem setti þetta þarna inn þegar við vorum að auglýsa mót,“ segir hann og bætir því við aðspurður að fáir keppi í svo löngu færi sem 400 metrum, kannski sex til tíu manns giskar hann á.

Mótið er á föstudaginn og kveður Hallur skotmenn í hans umdæmi enn halda sig töluvert mikið inni eftir heimsfaraldurinn. „Sumpart er þó mikil þátttaka hér miðað við annars staðar, alla vega stundum,“ segir Hallur Þór sem er nýtekinn við húsvíska félaginu en það hefur slitið barnsskónum og vel það, stofnað árið 1964.

Ekki bara fólk að skjóta úr rifflum

„Það er gróska í félaginu, ég man til dæmis ekki hve mörg félög eru með svona langa braut eins og við, 400 metra, en þau eru ekki mörg,“ segir formaðurinn og bætir því aðspurður við að félagatal Skotfélags Húsavíkur telji nú um 120 manns.

Hallur Þór kveður ekki öll skotfélög landsins geta státað af …
Hallur Þór kveður ekki öll skotfélög landsins geta státað af 400 metra braut en á föstudaginn blæs Skotfélag Húsavíkur til keppni í 400 metra skotfimi með riffli. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er allt að aukast og bara á seinustu tveimur árum hefur aðstaðan hjá okkur farið úr einum litlum skúr í tvö flott aðstöðuhús, annað þeirra er sérstaklega fyrir riffilgreinar og þar skammt frá er leirdúfuvöllur sem hefur verið vinsæll líka. Fólk er líka bara meira að átta sig á því núna að skotfimi er íþrótt, þetta er ekki bara fólk að skjóta úr rifflum,“ segir Hallur Þór Hallgrímsson formaður að lokum og undirstrikar í lokin að Pútín-skotskífan hafi ekki verið til þess gerð að skjóta neinum skelk í bringu eða vekja viðsjár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert