Kaldasti vetur aldarinnar á Íslandi

Kaldasti veturinn frá árinu 1999 er brátt að baki.
Kaldasti veturinn frá árinu 1999 er brátt að baki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eflaust má fullyrða að flestir Íslendingar taki sumrinu með opnum örmum á morgun, sumardaginn fyrsta, enda kaldur vetur að baki.

Raunar kaldasti veturinn í aldarfjórðung og því það sem af er þessari öld.

Samkvæmt mælingum Veðurstofu Íslands hefur vetur á landinu ekki mælst kaldari síðan veturinn 1998-1999. Mældist meðalhiti á landsvísu -0,2 stig sem er 1,2 stigum undir meðallagi síðustu tíu ára. 

Sólríkasti veturinn í Reykjavík

Kaldast var á norðanverðu landinu. Veður var engu að síður almennt gott og milt þrátt fyrir kuldann en illviðri voru tiltölulega fátíð.

Var veturinn meira að segja óvenju þurr og sólríkur suðvestanlands og sá sólríkasti í Reykjavík frá upphafi mælinga.

Mældust 558 sólskinsstundir í Reykjavík og 308 á Akureyri sem er hvort tveggja yfir meðaltali áranna 1991-2020. 

Færri alhvítir dagar

Var veturinn á höfuðborgarsvæðinu álíka kaldur og í fyrra en engu að síður um 0,7 stigum undir meðallagi áranna 1991-2020.

Á Akureyri var meðalhiti íslenska vetrarins aftur á móti -1,6 stig sem er 1,7 stigum undir meðallagi á sama tímabili.

Alhvítir dagar í Reykjavík í vetur voru 48, sem er 5 færri en að meðaltali 1991 til 2020. Á Akureyri var 91 alhvítur dagur sem er 2 dögum færri en að meðaltali 1991 til 2020.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka